Erlent

Lögreglustjóri Los Angeles vill fella niður gömul brot heimilislausra

Andri Eysteinsson skrifar
Michel Moore hefur verið embætti lögreglustjóra síðan í fyrra.
Michel Moore hefur verið embætti lögreglustjóra síðan í fyrra. Getty/SOPA Images
Lögreglustjórinn í Los Angeles, Michel Moore, segir vinnu vera hafna við að fella niður viðurlög við gömlum, smávægilegum brotum sem eru á sakaskrá heimilislausra í borginni. Það mun vera liður í ferli sem miðar að því að fækka heimilislausum í Los Angeles.

Meira en 36.000 manns eru heimilislaus í borg englanna en heimilislausum fjölgaði um 16% á árinu sem leið.

Í viðtali við fréttastofu AP sagði Moore að þetta væri eitt stærsta verkefnið sem hans biði. Það væri þó ekki löggæslunnar að leysa vandann heldur væri það á ábyrgð alls samfélagsins.

„Þetta er félagslegt neyðarástand,“ sagði Moore.

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, vakti fyrr í mánuðinum athygli á fjölda heimilislausra í Kaliforníu og sagðist mögulega ætla að grípa þar inn í og „laga til.“

Á meðal brota sem Moore hyggst láta niður falla eru ölvun á almannafæri, að tefja umferð um gangstéttir og að mæta ekki til fyrirtöku máls í réttarsal. Allt mál sem flokkast minniháttar en geta haft í för með sér háar fjársektir fyrir heimilislausa og getur gert illa verra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×