Erlent

Lögreglustjóri Los Angeles vill fella niður gömul brot heimilislausra

Andri Eysteinsson skrifar
Michel Moore hefur verið embætti lögreglustjóra síðan í fyrra.
Michel Moore hefur verið embætti lögreglustjóra síðan í fyrra. Getty/SOPA Images

Lögreglustjórinn í Los Angeles, Michel Moore, segir vinnu vera hafna við að fella niður viðurlög við gömlum, smávægilegum brotum sem eru á sakaskrá heimilislausra í borginni. Það mun vera liður í ferli sem miðar að því að fækka heimilislausum í Los Angeles.

Meira en 36.000 manns eru heimilislaus í borg englanna en heimilislausum fjölgaði um 16% á árinu sem leið.

Í viðtali við fréttastofu AP sagði Moore að þetta væri eitt stærsta verkefnið sem hans biði. Það væri þó ekki löggæslunnar að leysa vandann heldur væri það á ábyrgð alls samfélagsins.

„Þetta er félagslegt neyðarástand,“ sagði Moore.

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, vakti fyrr í mánuðinum athygli á fjölda heimilislausra í Kaliforníu og sagðist mögulega ætla að grípa þar inn í og „laga til.“

Á meðal brota sem Moore hyggst láta niður falla eru ölvun á almannafæri, að tefja umferð um gangstéttir og að mæta ekki til fyrirtöku máls í réttarsal. Allt mál sem flokkast minniháttar en geta haft í för með sér háar fjársektir fyrir heimilislausa og getur gert illa verra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.