Erlent

Neitaði að leyfa fréttakonu að eyða með sér deginum án karlkyns fylgdarmanns

Andri Eysteinsson skrifar
Robert Foster segir þetta eingöngu til marks um kristileg gildi sín.
Robert Foster segir þetta eingöngu til marks um kristileg gildi sín. Twitter/RobertFoster4MS
Robert Foster, bandarískur stjórnmálamaður og einn þeirra þriggja Repúblikana sem sækjast eftir embætti ríkisstjóra Mississippi, hefur legið undir gagnrýni ytra vegna þess að hafa neitað því að eyða degi með fréttakonu nema hún hefði karlmann meðferðis. BBC greinir frá.

Foster er ríkisþingmaður Mississippi og sækist eftir því að taka við embætti af Phil Bryant sem lögum samkvæmt má ekki bjóða sig fram til ríkisstjóra í þriðja skiptið. Fréttakona Mississippi Today, Larrison Campbell, hafði farið fram á við Foster að hún fengi að vinna innslag um hann og eyða með honum 15 tímum.

Foster hafnaði því tilboði nema að karlkyns starfsmaður yrði með í för. Spurður um ástæðu höfnunarinnar sagði Foster að hann hafi svarið þess heit við eiginkonu sína að hann skildi aldrei eyða stundu einn með öðrum kvenmanni. Foster sagðist hafa ákveðið að hafna þessu til þess að vekja ekki upp spurningar almennings um hjónaband hans. Þetta væru einfaldlega kristileg gildi sem hann héldi.

Fetar í fótspor Mike Pence

Foster sagðist feta í fótspor sjónvarpsprestsins Billy Graham og varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, sem báðir hafa sagst ekki munu eyða tíma einir með neinni konu annari en eiginkonu þeirra.

Þá sagði Foster að í kjölfar #MeToo hreyfingarinnar væri fylgst með körlum á öllum stundum. „Ég ætla ekki að koma mér í aðstöðu þar sem kona getur ásakað mig um nokkuð,“ sagði Foster einnig.

Fréttamaðurinn Larrison Campbell segir ákvörðun Foster anga af kynjamismunun. Í viðtali á CNN sagði Campbell að Foster væri með ákvörðun sinni fyrst og fremst að hlutgera konur. Þá spurði hún Foster hvernig hann gæti orðið góður ríkisstjóri ef hann gæti ekki fundað einn með konu.

Foster svaraði með því að segja að hægt væri að leysa það vandamál með því að hafa dyrnar opnar eða hafa fólk í næsta herbergi. 15 tíma bílferð með Campbell væri allt önnur ella. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×