Enski boltinn

Gömul sár á milli United og Inter trufla viðræður um Lukaku

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Romelu Lukaku hefur sjálfur sagt að hann vilji fara
Romelu Lukaku hefur sjálfur sagt að hann vilji fara vísir/getty
Blaðamaður Sky Sports segir enn vera illindi á milli Manchester United og Inter Milan eftir félagsskipti sem gengu ekki upp fyrir tveimur árum. Þessi illindi gætu haft áhrif á söluna á Romelu Lukaku.

Yfirmaður íþróttamála hjá Inter er á Bretlandseyjum til þess að ræða við forráðamenn United um belgíska framherjann. Í morgun staðfesti hann að fundurinn hafi verið formleg fyrirspurn um stöðu Belgans. Lukaku sjálfur er í Ástralíu með United þar sem liðið er á æfingaferðalagi.

Félögunum gengur illa að komast að samkomulagi um verð og Kaveh Solhekol, blaðamaður Sky, telur að það sé ekki það eina sem gæti hindrað skiptin.

„Það eru illindi á milli þessara tveggja félaga,“ sagði Solhekol.

„Fyrir tveimur árum reyndi Manchester United ítrekað að fá Ivan Perisic frá Milan. United bauð 45 milljónir evra en Inter vildi 50 og var ekki haggað þó munurinn væri aðeins 5 milljónir evra.“

„Ég held það sé enn ofarlega í minnum manna innan United hvernig Inter hagaði sér í því máli.“

United vill fá 75 milljónir punda fyrir Lukaku, sem er sama verð og félagið keypti hann á fyrir tveimur árum frá Everton.

Inter er hins vegar langt frá þeim verðmiða. Ítalska félagið vill fá Belgann á láni út næsta tímabili með þeirri skuldbindingu að eftir lánstímann kaupi þeir Lukaku með tveimur greiðslum á tveimur árum.







Þeir vilja borga 9 milljónir punda í sumar fyrir lánið og borga svo 27 milljónir punda á ári næstu tvö ár þar á eftir. Það gerir samanlagt 63 milljónir punda.

„Þetta er eins og ef ég labbaði inn í Ferrari umboð og spyrði hversu mikið Ferrari 488 kostaði. Sölumaðurinn svaraði 200 þúsund pund en ég býð að borga 20 þúsund pund og fá hann lánaðann í tvö ár áður en ég borga 20 þúsund pund til viðbótar. Þeir segðu mér að hunskast í burtu og ég held að Manchester United segi það sama við Inter Milan,“ sagði Solhekol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×