Íslenski boltinn

Ólafur: Menn fljótir á lyklaborðið

Einar Kárason skrifar
Ólafur og strákarnir hans hafa unnið tvo leiki í röð.
Ólafur og strákarnir hans hafa unnið tvo leiki í röð. vísir/bára
„Mér fannst þetta í raun og veru aldrei í hættu,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, eftir sigurinn á ÍBV, 1-2, í dag.

„Mér fannst við hafa góð tök á leiknum. Svo kom þetta víti. Við vitum að ÍBV-liðin gefast aldrei upp svo það var nú vitað að það væri von á því að þeir kæmu tímabundið til baka með áhlaup en það var gott að vera kominn í 2-0. Ég er ánægður með sigurinn. Stigin þrjú og spilamennskuna. Við erum ánægðir með hvernig leikmennirnir tóku ásinn á vellinum. Reynsla og þéttleiki og kannski einfaldleiki. Uppleggið gekk upp og stigin góð.“

FH hafa nú unnið tvo leiki í röð eftir vont gengi á þeirra mælikvarða. Hvert kemst FH í sumar?

„Í næsta leik á móti HK til að byrja með. Ég sagði eftir síðasta leik að fókusinn væri á að gera sig klára fyrir þennan leik hérna. Nú er hann búinn og það er smá pása þannig séð. Það er ekki hægt að komast á skrið ef menn fara á flug og missa sig eitthvað. Við einbeitum okkur bara að næstu æfingaviku og leiknum,“ sagði Ólafur.

„Ég svo sem þykist vita hvert FH liðið getur farið en um leið og ég melda það út þá eru menn fljótir á lyklaborðið. Það bítur mann í rassgatið. Ég hef engan áhuga á að setja það í loftið.“

Blaðamaður spurði út í Jákup Thompsen eftir leik en hann fór meiddur af velli eftir að hafa fiskað vítið sem braut ísinn í leiknum.

„Brotið. Ekki fiskað. Það var brotið á honum. Ástæðan fyrir því að ég greip inn í er að hann fiskaði ekki vítið heldur var brotið á honum. Hann fékk manninn ofan á sig. Á neðri legginn, kálfann. Hann fékk slink á hnéð því miður. Vonandi er það ekki alvarlegt en það er slæmt að missa hann en vonandi þegar bólgur hjaðna vitum við meira en við fyrsta kastið gat hann ekki haldið áfram.“

Ólafur var ánægður með þá sem komu inn á í leiknum.

„Menn komu inn og stigu inn og þeir sem komu inn, Jónatan, Þórir og Atli, skiluðu góðu verki. Það var liðsheildin sem var sterk í dag,“ sagði Ólafur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×