Fótbolti

Sinisa Mihajlovic með hvítblæði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mihajlovic tók við Bologna í byrjun þessa árs. Hann stýrði liðinu áður á árunum 2008-09.
Mihajlovic tók við Bologna í byrjun þessa árs. Hann stýrði liðinu áður á árunum 2008-09. vísir/getty
Sinisa Mihajlovic, knattspyrnustjóri Bologna, hefur greinst með hvítblæði.

Serbinn greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag. Hann mun sinna þjálfun Bologna áfram, meðfram meðferð við veikindum.

„Ég grét þegar ég fékk greininguna og er með tár í augunum núna en ég er ekki hræddur. Ég fer á sjúkrahús og get ekki beðið eftir því að hefja baráttuna. Ég sagði við leikmennina mína að ég myndi berjast til að vinna eins og ég hef kennt þeim að gera inni á vellinum,“ sagði Mihajlovic.

„Ég mun vinna þessa baráttu, ekki nokkur spurning. Ég vil þakka öllum hjá Bologna fyrir að láta mér líða eins og ég sé einn af fjölskyldunni. Ég þarf hjálp hennar til að vinna þessa baráttu. En ég vil ekki að fólk gráti út af mér. Ég vil ekki vorkunn.“

Faðir Mihajlovic lést úr krabbameini og þess vegna fer hann reglulega í skoðun. Hann segir að það hjálpi hversu snemma hann greindist með meinið, áður en það náði að dreifa sér.

Mihajlovic, sem er fimmtugur, tók við Bologna í ársbyrjun. Liðið vann níu af 17 leikjum undir hans stjórn á síðasta tímabili.

Mihajlovic lék í 14 ár á Ítalíu og hefur síðan þjálfað nokkur þarlend félög eftir að skórnir fóru á hilluna 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×