Erlent

Segja ummæli Trump bera vott um hvíta þjóðernishyggju

Sylvía Hall skrifar
Frá blaðamannafundinum.
Frá blaðamannafundinum. Vísir/Getty
Þingkonurnar fjórar sem talið er að Donald Trump hafi beint ummælum sínum að tjáðu sig á blaðamannafundi í kvöld. Þær segja ummælin vera truflun og hvöttu fólk til þess að „bíta ekki á agnið“.

Ljóst er að hann átti við þessar fjórar nýjar þingkonur demókrata, þær Alexandriu Ocasio-Cortez, Rashidu Tlaib, Ilhan Omar og Ayönnu Pressley. Þrjár þeirra eru fæddar í Bandaríkjunum ein Omar fluttist þangað sem barn frá Sómalíu. Allar eru þær dökkar á hörund.

Ummælin sem Trump lét falla á Twitter-síðu sinni í gær sneru að frjálslyndum þingkonum Demókrataflokksins en hann nefndi þær aldrei á nafn. Hann sagði þeim að fara aftur til síns heima og laga þá „algerlega brotnu og glæpalögðu“ staði.

Sjá einnig: Trump segir bandarískum þingkonum að fara aftur „til síns heima“

Margir leiðtogar Evrópuþjóða hafa fordæmt ummæli Trump og sagði Theresa May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, ummælin vera óásættanleg. Leiðtogar Demókrataflokksins hafa einnig stigið fram og gagnrýnt ummælin og sagði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, að Trump vildi gera Bandaríkin hvít aftur.





Lítið hefur þó heyrst úr röðum Repúblikana en Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður flokksins, sagði þingkonurnar vera óameríska kommúnista sem hötuðu Bandaríkin og gyðinga.

Ilhan Omar.Vísir/Getty

Þjóðernishyggjan hefur náð til Hvíta hússins 

Ilhan Omar, ein þingkvennanna, segir það vera heitustu ósk forsetans að aðskilja fólk eftir kyni, kynhneigð, kynþætti, trúarbrögðum og uppruna. Það sé hans eina leið til að koma í veg fyrir að fólk starfi saman þvert á skoðanir og stjórnmálastefnur.

„Þetta er áætlun hvítra þjóðernissinna. Það skiptir ekki máli hvort það eigi sér stað á spjallþráðum, í sjónvarpi, nú hefur það náð til garðsins í Hvíta húsinu,“ sagði Omar á blaðamannafundinum.

Hún segir það vera ljóst að ummæli Trump séu til þess fallin að draga athyglina frá raunverulegum vandamálum sem þurfi að takast á við. Nefnir hún heilbrigðiskerfið, loftslagsvandann, námsmannaskuldir eða stríðsrekstur Bandaríkjanna.

„Þetta er áætlun hans til þess að fá okkur upp á móti hvor annarri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×