Innlent

Náðu að bjarga bróðurparti skemmunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í dag.
Frá vettvangi í dag.

Slökkviliðsmenn hafa lokið störfum við skemmu á vegum Kópavogsbæjar, þar sem eldur kom upp skömmu eftir klukkan þrjú í dag. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu náðu viðbragðsaðilar að bjarga bróðurparti skemmunnar. Hluti hennar sé þó illa farinn.

Í fyrstu var talið að um væri að ræða um hundrað metra áhaldaskúr en húsnæðið reyndist þó öllu stærra, um 250 metrar, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu. Skemman er staðsett fyrir aftan Tennishöllina og líkamsræktarstöðina Sporthúsið í Kópavogi. Slökkviliðsmenn frá tveimur stöðvum voru kallaðir út vegna brunans en slökkvistarfi lauk nú á sjötta tímanum.

Ekki er vitað um eldsupptök. Þá var enginn inni í skemmunni þegar eldurinn kom upp og engin slys urðu á fólki.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.