Erlent

Íranir hertóku breskt olíuskip

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Olíuskipið Stena Impero.
Olíuskipið Stena Impero. Mynd/Stena bulk
Íranir lögðu í dag hald á breskt olíuskip í Persaflóa. Greint er frá málinu í írönskum fjölmiðlum.

Skipið heitir Stena Impero en breska ríkisútvarpið hefur eftir eigendum þess, fyrirtækinu Stena Bulk, að 23 séu um borð. Um klukkan fjögur í dag að breskum tíma hafi nokkrir litlir bátar og þyrla, sem talið er að séu á vegum Byltingarvarðarins, sérdeildar í íranska hernum, vitjað skipverjanna.

Ekki hefur náðst samband við skipið síðan. Það var á leið til Sádi Arabíu en siglir nú í norður, í átt að Íran. Haft er eftir yfirvöldum í Íran að borist hefði tilkynning um að Stena Impero væri til vandræða. Fulltrúar hersins hafi því verið sendir til að fylgja skipinu í höfnina í Bandar Abbas, þar sem rannsókn muni fara fram.

Í frétt BBC segir að breska utanríkisráðuneytið kanni nú málið. Þá hefur COBRA, sérstök þjóðaröryggismálanefnd Bretlands, boðað til fundar vegna atviksins.

Yfirvöld í Íran voru í byrjun mánuðar afar ósátt við að breskir sjóliðar hefðu kyrrsett íranskt olíuflutningaskip við Gíbraltar. Það gerðu Bretar vegna gruns um að íranska skipið væri að flytja olíu til Sýrlands, í trássi við viðskiptaþving­anir Evrópusambandsins. Íranir hótuðu því að kyrrsetja breskt olíuskip á móti.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Íranir neita því að hafa misst dróna

Aðstoðarutanríkisráðherra Írans vefengir fullyrðingar Bandaríkjaforseta um að bandarískt herskip hafi skopið niður íranskan dróna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×