Erlent

Segja Írani eiga meira en 300 kíló af auðguðu úrani

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á myndinni sést kjarnorkuver í Íran.
Á myndinni sést kjarnorkuver í Íran. getty/IIPA
Íranir eiga nú meira en 300 kíló af auðguðu úrani og hafa þar með brotið gegn kjarnorkusamningnum sem þeir gerðu við stórveldin árið 2015.

Frá þessu er greint á vef BBC sem hefur fregnirnar eftir ónafngreindum heimildarmönnum.

Samkvæmt fyrrnefndum samningi Írans og stórveldanna mega Íranir ekki eiga meira en 300 kíló af auðguðu úrani á hverjum tíma. Auðgað úran er notað til þess að búa til kjarnaeldsneyti og mögulega kjarnaorkuvopn.

Það hefur legið í loftinu í nokkrar vikur að Íranir myndu fara yfir hámarkið, ekki hvað síst vegna vaxandi spennu í samskiptum íranskra stjórnvalda og stjórnvalda í Bandaríkjunum.

Þannig gáfu Íranir það út um miðjan síðasta mánuð að þeir myndu brjóta gegn samningnum innan tíu daga en Evrópuþjóðir hafa varið þá við að brot gegn samningnum myndi hafa afleiðingar.

Ef Alþjóðakjarnorkumálastofnunin staðfestir að Íranir hafi brotið gegn samningnum er hægt að setja aftur á viðskiptaþvinganir gegn Íran sem var lyft þegar samningurinn var gerður árið 2015.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir að Íran brjóti gegn samningnum

Ef fram heldur sem horfir mun Íran gerast brotlegt við ákvæði JCPOA-kjarnorkusamningsins innan fáeinna daga og eiga meira auðgað úran en samningurinn heimilar. Þetta hafði Reuters eftir erindrekum sem vitnuðu til gagna rannsakenda á vegum Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×