Innlent

Kröftugar skúradembur, haglél og eldingar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sést á úrkomuspá Veðurstofunnar fyrir klukkan 18 annað kvöld má búast við skúrum víða um land.
Eins og sést á úrkomuspá Veðurstofunnar fyrir klukkan 18 annað kvöld má búast við skúrum víða um land. veðurstofa íslands

Það verður vætusamt sunnan og vestan til á landinu í dag og fremur milt í veðri að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Síðdegis mun svo draga úr úrkomu í þessum landshlutum en þá fer að rigna norðan og austan lands.

Á morgun fer síðan dálítil lægð austur yfir landið sunnanvert. Má því búast við norðaustan- og austanáttum á landinu með skúrum í flestum landshlutum.

Síðdegis á morgun er svo spáð kröftugum skúradembum á suðvestanverðu landinu og einnig á hálendinu þar sem eru líkur á stöku hagléljum eða eldingum í óstöðugu lofti sem fylgir miðju lægðarinnar.

Veðurhorfur á landinu:

Suðaustan 5-13 og rigningu eða súld sunnan og vestan lands, en hægari breytileg átt og bjart að mestu um landið norðaustanvert.

Snýst í hægari suðlæga átt og dregur úr úrkomu eftir hádegi, fyrst suðvestan til, en þykknar upp með dálítilli rigningu norðan- og austanlands undir kvöld. Austan og norðaustan 5-13 á morgun og víða skúrir, einkum síðdegis. Hiti 10 til 18 stig í dag, hlýjast norðaustanlands, en hiti 9 til 16 stig á morgun.

Á föstudag:
Norðlæg átt 5-10 m/s. Skýjað en úrkomulítið norðan- og austanlands, en annars skýjað með köflum og stöku síðdegisskúrir og hiti 8 til 13 stig.

Á laugardag:
Norðan 5-13 m/s, hvassast norðaustan til. Skýjað norðan- og austanlands og úrkomulítið, en bjart um sunnanvert landið. Hiti 5 til 10 stig norðaustan til, en 14 til 19 stig á Suður- og Vesturlandi.

Á sunnudag:
Norðan 5-13 m/s, hvassast norðvestan til. Rigning um norðan- og austanvert landið, en skýjað með köflum og þurrt sunnan til. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.