Erlent

Brjóta brátt annan skilmála kjarnorkusamningsins frá 2015

Andri Eysteinsson skrifar
Varautanríkisráðherra Íran, Abbas Araqchi.
Varautanríkisráðherra Íran, Abbas Araqchi. Getty/NurPhoto
Íransstjórn hefur tilkynnt að nú muni brátt hefjast frekari auðgun úrans sem muni hafa það í för með sér að skilmálar kjarnorkusamningsins frá 2015 verða rofnir. Magn efnisins sem unnið verður fer því fram úr þeim takmörkunum sem Íran var sett í samningnum sem gerður var af tilstilli Bandaríkjanna og nokkurra evrópskra stórvelda. BBC greinir frá.

Varautanríkisráðherra Íran, Abbas Araqchi, sagði á blaðamannafundi að Íranir vildu enn halda samningnum í gildi en kenndi Evrópuríkjum um hvernig fer. Araqchi sagði að Evrópuríkin hafi einfaldlega ekki uppfyllt sinn hluta samningsins.

Auk ríkja Evrópu voru Bandaríkin, undir stjórn Barack Obama, samningsaðilar. Undir núverandi stjórn hefur Bandaríkin hins vegar dregið sig til baka úr samningnum og sagði núverandi forseti að samningurinn væri einn sá allra versti sem hann hefði séð.

Bandaríkin drógu sig úr samningnum árið 2018 og hafa í kjölfarið beitt Íran þungum viðskiptaþvingunum.

Íranir hafa nú þegar brotið einn skilmála samningsins með því magni af auðguðu úrani sem þeir hafa framleitt en framleiðsla tók kipp í maí síðastliðnum. Auðgað úran er hægt að nota til að knúa kjarnakljúfa en einnig til framleiðslu á kjarnorkuvopnum.

Nú hafa Íranir tilkynnt að ríkið hyggist framleiða auðgað úran með hærri styrk en áður, þar sem samsætan úran-235 verður fyrirferðarmeiri eða yfir 3,67%.

Í gær lýsti forseti Frakklands, Emmanuel Macron, yfir áhyggjum sínum við íranska forsetann Hassan Rouhani vegna úranframleiðslu landsins og hvað myndi fara í hönd ef samningurinn félli úr gildi. Rouhani að sama skapi kallaði eftir viðbrögðum og vinnu Evrópuríkja við að bjarga samningnum.


Tengdar fréttir

Íransforseti boðar frekari auðgun úrans

Stjórnvöld í Teheran reyna nú að þrýsta á Evrópuríki sem eiga aðild að kjarnorkusamningum um að þau verja Íran fyrir viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×