Innlent

Lífslíkur á Íslandi með þeim mestu í Evrópu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meðalævilengd karla hér á landi er 81 ár og meðalævilengd kvenna 84,1 ár.
Meðalævilengd karla hér á landi er 81 ár og meðalævilengd kvenna 84,1 ár. vísir/vilhelm
Lífslíkur á Íslandi eru með þeim mestu í Evrópu en árið 2018 var meðalævilengd karla hér á landi 81 ár og meðalævilengd kvenna 84,1 ár.

Meðalævilengd er reiknuð út frá lífslíkum og sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands.

Þar segir jafnframt að aldursbundin dánartíðni hafi lækkað á undanförnum áratugum og því megi vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

„Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd.

Á 10 ára tímabili (2008–2017) var meðalævi karla lengst í Sviss 80,7 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið í Evrópu. Fast á hæla þeirra komu karlar á Íslandi (80,6), Liechtenstein (80,3), Svíþjóð (80,0) og Ítalíu (80,0), síðan á Spáni og í Noregi (79,7). Styst var meðalævilengd evrópskra karla í Rússlandi (62,6), Moldavíu (65,9), Úkraínu (66,0).

Á sama tíma var meðalævi kvenna á Spáni 85,7 ár og í Frakklandi 85,5 ár og skipuðu þær fyrsta og annað sæti í Evrópu. Næst á eftir komu konur í Sviss (85,0), Ítalíu (84,9), Liechtenstein (84,4), Luxemborg (84,1) og á Íslandi (84,0). Meðalævilengd kvenna var styst í Moldavíu (74,0), Rússlandi (74,6) og Úkraínu (76,1),“ segir á vef Hagstofunnar.

Þá er ungbarnadauði í Evrópu minnstur á Íslandi:

„Árið 2018 létust 2.254 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.139 karlar og 1.115 konur. Dánartíðni var 6,4 látnir á hverja 1.000 íbúa og ungbarnadauði 1,7 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2018.

Á 10 ára tímabili (2008–2017) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,8 af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn fátíður og hér. Ungbarnadauði var að meðaltali 2,2 í Finnlandi og Slóveníu, 2,5 í Svíþjóð og Noregi og 2,7 í Tékklandi og Kýpur. Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 11,7 af hverjum 1.000 lifandi fæddum,“ segir á vef Hagstofunnar þar sem lesa má nánar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×