Enski boltinn

Derby vill Phillip Cocu sem arftaka Lampard

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Phillip Cocu gæti komist aftur inn á vinnumarkaðinn fljótlega
Phillip Cocu gæti komist aftur inn á vinnumarkaðinn fljótlega vísir/getty
Derby County vill fá Phillip Cocu til þess að taka við stöðu knattspyrnustjóra félagsins ef, eða þegar, Frank Lampard fer á brott.

Lampard mun á allra næstu dögum verða kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Chelsea samkvæmt frétt The Times. Derby hefur haft þó nokkra daga til þess að undirbúa sig fyrir missinn leita að nýjum stjórum.

Maðurinn sem virðist nú vera þeirra helsta skotmark er Hollendingurinn Cocu.

Mel Morris, eigandi Derby, sagði við talkSport á dögunum að hann vildi fá inn stjóra sem líktist Lampard.

„Leikstíllinn er lykilatriði, ákefðin í spilinu er lykilatriði og tengingin við stuðningsmennina er lykilatriði,“ sagði Morris.

Þá vill Morris fá inn mann sem horfir einnig til akademíunnar hjá Derby og fagnar uppbyggingu innan klúbbsins.

Cocu gæti passað vel inn í hugmyndafræði Derby. Hann er þekktur fyrir að lið hans séu skipulögð og hann er rólegur í sínum mannlegu samskiptum. Eitt af því sem stóð upp úr í stjóratíð hans hjá PSV var hvernig hann sótti og nýtti sér leikmenn úr akademíunni.

Hjá PSV vann Cocu hollenska meistaratitilinn þrisvar á fjórum árum, þrátt fyrir að hafa minna fjármagn á milli handanna en Ajax. Hann tók Memphis Depay upp úr unglingastarfinu og gerði hann að einum eftirsóttasta unga leikmanni heims á sínum tíma.

Cocu hefur verið atvinnulaus síðan í október þegar hann var látinn fara frá Fenerbahce.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×