Erlent

Krefst þess að eftirlitsmenn fái að koma til Súdan

Kjartan Kjartansson skrifar
Michelle Bachelet, fyrrverandi forseti Síle, er mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Michelle Bachelet, fyrrverandi forseti Síle, er mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. Vísir/EPA
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að súdanski herinn verði að binda enda á kúgun sína á mótmælendum, opna aftur fyrir netaðgang og leyfa alþjóðlegum eftirlitsmönnum að koma til landsins. Rúmlega hundrað mótmælendur hafa verið drepnir í þessum mánuði.

Herinn hefur stýrt Súdan frá því að hann steypti Omar al-Bashir forseta af stóli 11. apríl. Samkomulag hafði náðst á milli herforingjanna og stjórnarandstöðunnar um aðlögunartímabil áður en borgaralegri stjórn yrði komið aftur á.

Það samkomulag fór út um þúfur þegar herinn reyndi að tvístra hópi mótmælenda sem hefur haldið til nærri höfuðstöðvum hans í höfuðborginni Khartoum 3. júní. Mótmælendur fullyrða að 128 þeirra hafi verið drepnir en herinn telur 61 hafa fallið, þar á meðal þrír hermenn.

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að hún hafi heimildir fyrir því að fleiri en hundrað mótmælendur hafi verið drepnir og fjöldi særður, að því er segir í frétt Reuters.

Í opnunarræðu þriggja vikna fundarhalda mannréttindaráðsins í Genf í dag sagði hún að súdanskar öryggissveitir hefðu staðið fyrir „hrottalegri herferð“ gegn mótmælendum. Krafðist hún þess að alþjóðlegir mannréttindaeftirlitsmenn fengju aðgang að landinu.

Eþíópísk stjórnvöld hafa reynt að miðla málum á milli súdanska hersins og mótmælenda. Þeir síðarnefndu féllust á áætlun þeirra um hvernig borgaralegri stjórn yrði komið aftur á í gær, að sögn AP-fréttastofunnar. Herinn hefur ekki enn tekið afstöðu til áætlunarinnar.


Tengdar fréttir

Afríkusambandið frysti aðild Súdans vegna aðgerða hersins

Aðild Súdans að Afríkusambandinu hefur verið fryst eftir að tugir mótmælenda féllu í árásum súdanska hersins. Illa hefur gengið að leysa deiluna en forsætisráðherra Eþíópíu kemur til landsins í dag til að reyna að miðla málum.

Hundrað mótmælendur drepnir í Súdan

Tala látinna mótmælenda í Kartúm, höfuðborg Súdan, hækkaði í gær og stóð í rúmlega hundrað. Áður var staðfest að 35 hefðu látist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×