Fer fram á fimm og hálfs árs fangelsi yfir Ludvigsen fyrir kynferðisbrotin

Saksóknari í Noregi fer fram á fimm og hálfs árs fangelsi yfir Svein Ludvigsen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem sakaður er um kynferðisbrot gegn ungum hælisleitendum. Réttarhöldin í máli Ludvigsen hófust aftur í morgun.
„Við getum sagt með fullri vissu að Svein Ludvigsen hafi sagt ósatt í nokkur skipti. Af hverju ættum við að treysta honum nú?“ spurði Torr Borge Nordmo saksóknari í Norður-Troms fyrir rétti í dag.
Sjá einnig: Telur að Ludvigsen hafi aðeins aðstoðað fórnarlömb sín til þess að sýna vald sitt
Ludvigsen, sem er fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi fylkisstjóri Troms, er ákærður fyrir að hafa misnotað vald sitt sem norskur embættismaður, lofað að veita þremur ungum mönnum hæli í Noregi og þvingað þá þannig til að hafa við sig samfarir. Þá hafi hann nýtt sér þroskaskerðingu eins þeirra til að brjóta á honum.

Ludvigsen viðurkennir að hafa stundað kynlíf með einum mannanna en heldur því fram að það hafi verið gert með samþykki. Þá viðurkennir hann einnig að hrífast kynferðislega af karlmönnum en hann hafði þvertekið fyrir slíkar tilfinningar í skýrslutöku áður en réttarhöldin hófust.
Hælisleitendurnir hafa lýst því fyrir rétti að Ludvigsen hafi haft mikið vald yfir þeim og þannig fengið vilja sínum framgengt, þ.e. með því að lofa þeim gulli og grænum skógum en einnig hafi hann hótað því að svipta þá öllu sem hann hafði gefið þeim.
Einn mannanna lýsti því til dæmis að Ludvigsen hefði lagt áherslu á það við sig að hann ætti vini í lögreglunni og að hann þekkti Noregskonung. Það myndi því ekki vera vandamál fyrir sig að láta vísa manninum úr landi.
Tengdar fréttir

Telur að Ludvigsen hafi aðeins aðstoðað fórnarlömb sín til þess að sýna vald sitt
Einn af hælisleitendunum sem Svein Ludvigsen, fyrrverandi sjávarútvegisráðherra Noregs, er sakaður um að hafa brotið á kynferðislega telur að hjálpsemi hans í þeirra garð hafi aðeins verið hans leið til þess að sýna hversu mikið vald hann hefði. Hælisleitandinn segist á einum tímapunkti hafa haft í hyggju að myrða Ludvigsen vegna málsins.

Ludvigsen-málið: Óhræddur við lögreglu en óttaðist að eiginkonan kæmist að kynferðisbrotunum
Svein Ludvigsen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Noregs, neitaði sök er réttarhöldin yfir honum vegna kynferðisbrota gegn þremur ungum hælisleitendum sem hann er sakaður um, hófust í dag. Saksóknari segir skýr sönnunargögn benda til sektar ráðherrans fyrrverandi.

Hneyksli skekur Noreg: Fyrrverandi ráðherra ákærður fyrir kynferðisbrot gegn hælisleitendum
Saksóknari í Noregi hefur ákært Svein Ludvigsen fyrrverandi sjávarútvegsráðherra fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum hælisleitendum.