Innlent

Athugulir vegfarendur slökktu eld sem ungmenni kveiktu við FSU

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eldurinn logaði glatt á milli trjánna.
Eldurinn logaði glatt á milli trjánna. Mynd/Aðsend

Ungmenni kveiktu í trjálundi við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi um miðnætti í gær. Slökkvilið og lögregla voru kölluð á vettvang en athugulir vegfarendur voru búnir að slökkva eldinn þegar viðbragðsaðila bar að garði.

Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu segir í samtali við Vísi að ungmennin hafi verið á bak og burt þegar slökkvilið og lögregla komu á vettvang. Ekki sé vitað hverjir voru að verki en Pétur færir vegfarendunum sem réðu niðurlögum eldsins kærar þakkir fyrir skjót viðbrögð. Það sé þeim að þakka að ekki fór verr.

Tveir slökkviliðsmenn urðu þó eftir til að bleyta í því sem eftir var, enda búið að vera þurrt á svæðinu og því hætta á því að glæður breiði úr sér. Enginn eldur kom þó upp aftur en það var ekki síst að þakka rigningunni á Suðurlandi.

„Í framhaldi hefur skaparinn sett sína úðara á og bleytt vel í, sem við erum mjög þakklát fyrir,“ segir Pétur.

Einn dælubíll var sendur á vettvang frá slökkviliðsstöðinni á Selfossi. Mynd/Aðsend
Nokkurn reyk lagði frá eldinum við skólann. Mynd/Aðsend


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.