Íslenski boltinn

Þrjár af leikjahæstu landsliðskonum sögunnar eiga allar afmæli í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir heldur upp á 24 ára afmælisdaginn sinn í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir heldur upp á 24 ára afmælisdaginn sinn í dag. vísir/vilhelm
27. júní er góður dagur fyrir íslenska kvennaknattspyrnu. Þrjár reyndar íslenskar landsliðskonur, núverandi og fyrrverandi, fæddust á þessum degi.

Glódís Perla Viggósdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og Katrín Ómarsdóttir halda nefnilega allar upp á afmælið sitt í dag. Allar eru þær í hópi tuttugu leikjahæsti landsliðskvenna sögunnar.

Glódís Perla Viggósdóttir er enn í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu, Harpa Þorsteinsdóttir er sjöunda markahæsta landsliðskona sögunnar og Katrín Ómarsdóttir spilaði 69 leiki með íslenska landsliðinu á árum áður.

Glódís Perla hefur spilað 77 A-landsleiki fyrir 24 ára afmælið sitt og er komin í hóp leikjahæstu landsliðskvenna sögunnar. Hún spilar nú FC Rosengård með í Svíþjóð eins og hún hefur gert undanfarin ár.

Harpa Þorsteinsdóttir missir af öllu tímabilinu vegna meiðsla sem hún varð fyrir í bikarúrslitaleiknum í fyrra. Hún hefur skorað 19 mörk í 67 landsleikjum.

Katrín Ómarsdóttir er að spila með KR í Pepsi Max deild kvenna og var bæði með mark og stoðsendingu um síðustu helgi þegar KR-liðið tók stig af Þór/KA fyrir norðan. Katrín varð á sínum tíma tvöfaldur Englandsmeistari með Liverpool. Katrín skoraði 10 mörk í sínum 69 landsleikjum.

Knattspyrnusamband Íslands óskaði þeim öllum til hamingju með daginn á Twitter síðu sinni í dag eins og sjá má hér fyrir neðan.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×