Erlent

Rússneska blaðamanninum sleppt úr fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Golunov táraðist þegar honum var sleppt úr haldi í Moskvu í dag. Lögreglustjórinn þar felldi niður allar ákærur á hendur honum.
Golunov táraðist þegar honum var sleppt úr haldi í Moskvu í dag. Lögreglustjórinn þar felldi niður allar ákærur á hendur honum. AP/Pavel Golovkin
Ívan Golunov, rússneska blaðamanninum sem var fangelsaður vegna ákæru um fíkniefnabrot, hefur verið sleppt úr haldi. Mál Golunov hefur vakið hneykslan á meðal rússnesks almennings. Rannsókn hefur verið boðuð á hvernig reynt var að koma sök á rannsóknarblaðamanninn.Stuðningsmenn Golunov hafa mótmælt fangelsun hans og hefur mál hans vakið athygli á heimsvísu. Sem blaðamaður hefur Golunov meðal annars rannsakað ritskoðun og vafasama fjármálagerninga í Rússlandi. Yfirvöld sökuðu hann um fíkniefnasölu.Nú segir Vladímír Kolokoltsev, innanríkisráðherra Rússlands, að ekki hafi verið sýnt fram á sekt Golunov sem hefur verið haldið í stofufangelsi. Ákveðið hafi verið að leysa Golunov úr haldi eftir „réttarfræðilegar, líffræðilegar, fingrafara- og erfðafræðilegar tilraunir“.Ráðherrann boðar rannsókn á hvernig málið gegn honum kom til og hefur beðið Vladímír Pútín forseta um að reka tvo háttsetta embættismenn vegna málsins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.Golunov felldi tár og hét því að halda áfram rannsóknarblaðamennsku sinni þegar hann var látinn laus í dag. Hann hefur meðal annars starfað fyrir fréttasíðuna Meduza sem er rekin í Lettlandi. Rússneskir blaðamenn stofnuðu síðuna eftir að nýir eigendur hliðhollir stjórnvöldum í Kreml tóku yfir fréttasíðuna Lenta.ru þar sem þeir stöfuðu áður.

Lögreglan þurfti að draga falskar myndir til baka

Jonah Fisher, fréttaritari BBC í Moskvu, segir að mál Golunov hafi verið það vandræðalegasta fyrir rússnesk yfirvöld. Þannig þurfti lögreglan að draga til baka myndir sem hún hafði birt af hlutum fyrir fíkniefnaneyslu eftir að sýnt var fram á að þær voru ekki teknar í íbúð Golunov eins og hún hafði haldið fram.Rannsókn hafi svo leitt í ljós að engin tengsl hafi verið á milli Golunov og fíkniefna sem lögreglan sagðist hafa fundið á honum þegar hann var stöðvaður í Moskvu í síðustu viku. Lögmenn Golunov fullyrða að lögreglumenn hafi komið eiturlyfjunum fyrir á honum. Lögreglumennirnir eru einnig sagðir hafa lumbrað á Golunov.Svo virðist sem að ákvörðunin um að leysa Golunov úr haldi hafi verið tekin á æðstu stöðum í Kreml þegar ljóst var að málið hyrfi ekki í gleymskunnar dá. Boðað hafði verið til mótmæla vegna handtöku blaðamannsins í Moskvu á morgun.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.