Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - KR 1-3 | KR á toppinn eftir öruggan sigur

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. vísir/bára
Það var sannkallaður toppslagur á Skaganum í kvöld er KR heimsótti ÍA í 8. umferð Pepsi deildar karla í dag. 

 

Leikurinn fór ágætlega af stað fyrir heimamenn í ÍA sem voru að fá föst leikatriði á hættulegum svæðum í upphafi leiks en föst leikatriði hafa einmitt verið þeirra besti vinur fram til þessa.

 

Það var hinsvegar KR sem skoraði fyrsta mark leiksins er Hallur Flosa felldi Kristinn Jónsson inn í vítateignum og vítaspyrna dæmd. Pálmi Rafn steig upp og skoraði af miklu öryggi og kom gestunum í 1-0. 

 

ÍA var vart búið að ná andanum þegar að Óskar Örn, þekktur fyrir baneitraðan vinstri fótinn sinn, skellti sér fyrir utan teig yfir á hægri og setti boltann í fjærhornið og staðan orðin 2-0. 

 

Skagamenn virtust steinrotaðir því það var mun líklegra að KR myndi bæta við mörkum en að heimamenn gætu minnkað muninn og hvað þá jafna?

 

Jóhannes Karl breytti snemma í seinni hálfleik og setti spænska framherjan Gonzalo Zamorano inn fyrir miðvörðun Einar Loga en KR-ingar héldu áfram að vera mjög skeinuhættir í skyndisóknum. 

 

Loksins, eftir að hafa vaðið í dauðafærum, komst KR í 3-0 er Óskar Örn renndi boltanum á Tobias Thomsen sem skoraði, 3-0. Úrslitin endanlega ráðin þrátt fyrir að Viktor Jónsson minnkaði muninn fyrir Skagamenn í restina. 

 

KR komið á toppinn með sinn fjórða sigur í röð og senda hér skýr skilaboð til restina af deildinni. ÍA hinsvegar nú búið að tapa þremur leikjum í röð í deild og bikar sem verður að teljast vonbrigði eftir ótrúlega byrjun liðsins í vor.

 

 

 

Afhverju vann KR?

Ég hef undanfarin ár farið á fullt af leikjum KR og oft séð þá vinna leiki enn satt að segja sjaldan verið eitthvað sérstaklega hrifinn. Ég get hinsvegar ekki sagt neitt þvíumlíkt í dag því KR spiluðu frábærlega. 

 

KR voru beittir fram á við og nýttu hvert tækifæri til að fara hratt á Skagamenn og voru þar að auki góðir varnarlega. Sigurinn var a.m.k. aldrei nokkurn tíman í hættu. 

 

Fyrir mér var KR að senda skýr skilaboð til Íslensks fótbolta. Þessi sigur var þeirra fjórði í röð í deildinni og þeir gætu núna algjörlega litið á sig sem líklegasta liðið til að hampa titlinum í haust. 

 

Kannski er full snemmt að halda slíku fram en þegar liðið í heild spilar jafn vel og í dag og með dass af Óskari Erni í sínu guðdómlega formi þá getur þetta KR lið unnið hvaða lið sem er í þessari deild.

 

 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Hversu góður er Óskar eiginlega? Svona án djóks? 

Óskar Örn er 34 ára en virðist hreinlega eldast eins og gott vín. Hann hefur alltaf verið mj-g góður en hann hefur byrjað þetta mót eins og maður með markmið. Hann ætlar að handsama þennan bikar. 

 

Einnig ber að nefna Finn Tómas sem hefur skyndilega mætt í þetta byrjunarlið KR í hjarta varnarinnar og staðið sig frábærlega. Finnur er 2001 módel en næst yngsti leikmaður KR sem byrjaði í dag var Alex Freyr Hilmarsson, 1993 módel.

 

Ef KR er að fela fleiri svona gimsteina í unglingaliðinu þá vona ég að við fáum að sjá þá á vellinum sem allra fyrst.

 

Hvað gekk illa?

Leikskipulag Skagamanna hefur virkað fullkomlega til þessa í deildinni en liðið komst á toppinn með blöndu af topp skipulagi og smá heppni líka. Núna virðist þetta heppni hafa þurkast út og andstæðingar byrjaðir að lesa betur í skipulagið þeirra.

 

KR manaði Skagamenn til að stýra leiknum og taka frumkvæðið í sókn í dag. Í stað þess að leyfa Skagamönnum að beita skyndisóknum beið KR færis og hreytti svo skyndisóknum í andlitið á heimamönnum. 

 

Miðað við leikina gegn Fylki, ÍBV og nú í dag gegn KR á ÍA virkilega erfitt með að stýra leiknum með bolta í fætur. Jóhannes Karl og félagar þurfa að finna lausn á því.

 

Hvað gerist næst?

ÍA fær HK í heimsókn sem hlýtur að teljast ansi gott tækifæri til að rétta úr kútnum. KR fær ríkjandi Íslandsmeistara Val í heimsókn í Frostaskjólið en miðað við frammistöðu Vals gegn ÍBV á sama tíma í dag þá má búast við hörku leik.

 

Tryggvi Hrafn: Þurfum að komast aftur á skrið

Tryggvi Hrafn, leikmaður ÍA, var ósáttur í leikslok eftir tap liðsins gegn KR en þetta var þeirra þriðja tap í röð í öllum keppnum.„Við vorum lélegir í dag, lélegir í síðasta leik og ekki nógu góðir í leiknum þar á undan þannig ég er ekki sáttur,“ sagði Tryggvi sem er þó áhyggjulaus yfir ástandinu.

 

„Ég hef engar áhyggjur af þessu. Við þurfum bara að setjast niður og fara yfir hvað sé að fara úrskeiðis hjá okkur,“ sagði Tryggvi sem tók undir að KR virtist hafa verið búið að kortleggja þá vel.

 

„Það virðist vera. KR lokuðu vel á það sem við lögðum upp með í dag og áttu þetta bara skilið. Við þurfum að komast aftur á skrið ef við ætlum að gera eitthvað í þessari deild.“

 

Óskar Örn: Horfum fram á við

„Þetta var góður leikur af okkar hálfu. Þeir komu aðeins á okkur í lokin með vindin í bakið en þetta var aldrei í hættu,“ sagði kátur maður leiksins, Óskar Örn, leikmaður KR. 

 

Óskar Örn skoraði mark og lagði upp annað og var valinn maður leiksins fyrir frábæru frammistöðu sína í kvöld.

 

Sigurinn færði liðið á toppinn og aðspurður hvort KR ætlaði að halda sér þar var Óskar ekki í vafa. Hann segir þó að mótið sé ekki langt komið en að KR ætli sér alltaf titilinn. 

 

„Við erum á góðum stað en nú horfum við bara fram á við.“

 

Rúnar: Sennilega okkar besti leikur

„Ég er gríðarlega ánægður. Við vorum frábærir í dag og það þurfti til þess að vinna spræka og góða Skagamenn,“ sagði ánægður Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir 3-1 sigur á ÍA í toppslag deildarinnar. 

 

Skagamenn áttu fá svör við leik KR og engu líkara nema að gestirnir hefðu náð að nýta landsleikjahléið vel í að kortleggja andstæðingin.

 

„Við fylgjumst með þeim eins og öllum öðrum liðum. Ég held að ég sé engin undantekning frekar en aðrir þjálfarar í deildinni. Við reynum allir að lesa í andstæðingin og finna lausnir. Okkar heppnaðist vel í dag,“ sagði Rúnar og bætti við: „Þetta var sennilega okkar besti leikur í sumar.  

 

Rúnar hrósaði svo Tobias Thomsen vel og mikið en daninn skoraði þriðja mark KR-inga í dag.

 

„Ég hef verið ofsalega ánægður með hann. Hann hleypur mikið og er búinn að átta sig á að hann verði að hafa fyrir hlutanum. Hann skoraði flott mark og skilar alltaf mikilli vinnu fyrir okkur.“

 

Rúnar hrósaði svo Óskari Erni sem átti frábæran leik í dag og skoraði og lagði upp eitt og var valinn maður leiksins. 

 

„Óskar hefur verið frábær. Honum líður vel. Er með mikið sjálfstraust og fær að leika lausum hala svo lengi sem hann hleypur til baka í vörninni. Hann er að skora og leggja upp fyrir okkur,“ sagði Rúnar um Óskar sem hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar í sumar. 

 

KR er nú komið á topp Pepsi deildarinnar sem er einmitt þar sem Vesturbæjarstóveldið telur sig eiga heima, eða hvað?

 

„Þetta var sennilega okkar besti leikur. Það er alltaf stefnan að hanga á toppnum en það er nóg eftir en það er gott að vera þar sem við erum núna.“

 Jóhannes Karl: Fannst þetta vera dýfa

„Við hleyptum KR-ingunum ódýrt inn í leikinn. Við ætluðum að vera þéttari til baka og vera öflugri í vörn en það breytir ekki því að mér fannst KR fá ódýrt víti,“ sagði ósáttur Jóhannes Karl, þjálfari ÍA, eftir tap hans manna gegn KR í dag.

 

KR fékk vítaspyrnu á 10. mínútu er Hallur Flosason braut á Kristinni Jónssyni inn í vítateig Skagamanna. Eða þannig leit Helgi Mikael, dómari leiksins, á atvikið en Jóhannes Karl er ekki sammála.

 

„Mér fannst þetta bara vera dýfa. Dómarinn gerði ekki vel í því atviki þó svo hann dæmdi leikinn heilt yfir vel. Þetta var aldrei víti og það var erfitt fyrir okkur að kyngja því og fá svo annað markið í andlitið stuttu síðar,“ sagði Jóhannes Karl sem gaf lítið fyrir að KR hefði verið búið að kortleggja sína menn.

 

„Við vissum að KR-ingarnir yrðu þéttir til baka. Þeir hafa verið það undanfarið og hafa ekki fengið á sig mikið á af mörkum. Við hinsvegar í heild áttum ekki góðan leik,“ sagði Jóhannes sem segir markmið liðsins ekki hafa breyst eftir frábæra gengið í upphafi tímabils né eftir þrjá tapleiki í röð á undanförnum vikum.

 

„Við settum okkur markmið að berjast í efri hlutanum og það hefur ekkert breyst. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur. Úrslitin í dag sýna að við erum ekki komnir lengra en við erum á ákveðinni vegferð og breytum ekki útaf því heldur höldum áfram.“

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.