Flugáhugamenn töldu í fyrstu að þetta hlyti að vera sama Katalína og hafði viðkomu á flugsýningunni fyrir hálfum mánuði á leið sinni vestur um haf en væri núna á leið til baka frá Bandaríkjunum. Þetta er hins vegar önnur vél, smíðuð árið 1943, fyrir kanadíska flugherinn, en sú fyrri er frá árinu 1941 og sú elsta flughæfa sem til er.
Svo skemmtilega vill til að þessi, rétt eins og sú fyrri, var einnig staðsett á Reykjavíkurflugvelli á stríðsárunum, frá 1943 til 1945. Þessi náði þá að granda einum þýskum kafbáti, U-342, suðvestur af landinu þann 17. apríl árið 1944. Sú fyrri grandaði þremur kafbátum við Ísland.
Líklegt er að fara þurfi marga áratugi aftur í tímann til að finna dæmi um tvær Katalínur millilenda í Reykjavík á sama sumri. Sjaldgæft er orðið að svo fágætum forngripum sé flogið yfir Atlantshafið enda eru aðeins um tuttugu eintök eftir í heiminum í flughæfu ástandi. Á undan þessum kom Catalina síðast til landsins sumarið 2012 en þá hafði slík vél ekki sést í Reykjavík á þessari öld.

Vélin var áður í eigu sérstaks sjóðs um varðveislu hennar og hefur verið staðsett á flugvelli suðaustur af París en var nýlega seld til einstaklings í Bandaríkjunum. Nýi eigandinn er um borð og kvaðst hann í samtali við fréttamann á Reykjavíkurflugvelli í kvöld vera að ferja hana til nýrra heimkynna í Oregon. Þar verður hún höfð til sýnis og flogið á flugsýningum en um sögu hennar má nánar fræðast hér.
Áhöfnin hyggst hvílast í Reykjavík í nótt. Á morgun áformar hún að fljúga vélinni til Narsarsuaq, síðan til Goose Bay og um Ontario áfram til Oregon.
Catalina-flugbátar mörkuðu djúp spor í flugsögu Íslands, eins og sagt var frá í þessari frétt Stöðvar 2 frá árinu 2012: