Innlent

Elsta flughæfa Katalínan væntanleg til Reykjavíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Catalina-flugbátur, árgerð 1943, var helsta aðdráttaraflið á flugsýningu árið 2012 á Reykjavíkurflugvelli. Þetta er þó ekki sú vél sem væntanleg er á morgun.
Catalina-flugbátur, árgerð 1943, var helsta aðdráttaraflið á flugsýningu árið 2012 á Reykjavíkurflugvelli. Þetta er þó ekki sú vél sem væntanleg er á morgun. Mynd/Vísir.
Flugveislan í Reykjavík heldur áfram. Á morgun er væntanlegur enn einn dýrgripurinn; Catalina-flugbátur, sem staðsettur var á Íslandi í síðari heimsstyrjöld. Þetta er elsta flughæfa Katalínan, sem eftir er í heiminum, smíðuð árið 1941, en hún verður til sýnis á flughátíð á Reykjavíkurflugvelli næstkomandi laugardag, 1. júní. Búist er við að Katalínan lendi í Reykjavík um tvöleytið á morgun, uppstigningardag, að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, forseta Flugmálafélags Íslands. Nánar um lendingartíma hér.Flugvélin kemur frá Hollandi en héðan er för hennar heitið til Bandaríkjanna. Matthías segir að Katalínan muni taka flugið fyrir áhorfendur á laugardag og síðan muni gestir geta skoðað hana í návígi.

Catalina-flugbátar yfir Reykjavík í síðari heimsstyrjöld. Þeir reyndust eitt skæðasta vopnið í baráttunni gegn kafbátum Þjóðverja á Atlantshafinu.
Þessi tiltekni Catalina-flugbátur skipar merkan sess í stríðssögunni því að í eftirlits- og árásarferðum út frá Reykjavíkurflugvelli náði hann að sökkva þremur þýskum kafbátum í Norður-Atlantshafi. Þetta þykir það stórt afrek að flugbáturinn, með númerið 2459 í flugdeild bandaríska sjóhersins, er talinn sú flugvél herja Bandamanna sem náði mestum árangri í baráttunni gegn herveldi Adolfs Hitlers. Catalina-flugbátur kom síðast til Íslands fyrir sjö árum og var þá sýndur á flugdegi sem Flugmálafélagið hélt í tilefni af 75 ára afmæli Icelandair. Af um 3.300 eintökum, sem smíðuð voru, eru aðeins um 20 eftir í heiminum í flughæfu ástandi.

Catalina við afgreiðslu Flugfélagsins á Reykjavíkurfluvelli. Þessar flugvélar áttu stóran þátt í uppbyggingu innanlandsflugsins á árunum 1944-1961.Mynd/Flugmálafélag Íslands.
Katalínur, eða „Köturnar“, eins og þær voru einnig kallaðar, skipa veglegan sess í flugsögu Íslands. Þær voru notaðar hérlendis um tuttugu ára skeið, á árunum frá 1944 til 1963, hjá Flugfélagi Íslands, Loftleiðum og Landhelgisgæslunni.Fyrsti Catalina-bátur Íslendinga var TF-ISP Flugfélags Íslands, kallaður Gamli-Pétur. Hann var keyptur frá Bandaríkjunum árið 1944 og varð fyrsta íslenska flugvélin til þess að fljúga milli landa, - flaug fyrsta millilandaflug Flugfélags Íslands sumarið 1945.

Catalinan TF-ISK, Skýfaxi, sem Flugfélag Íslands átti frá 1948 til 1959 en þá var hún rifin á Reykjavíkurflugvelli.Flugmálafélag Íslands.
Catalina flugbátar, bæði Flugfélags Íslands og Loftleiða, áttu stóran þátt í uppbyggingu innanlandsflugs á árunum 1944 til 1961 þegar flugvellir voru fáir, samgöngur á landi erfiðar og sjóferðir tímafrekar. Síðasti Catalina flugbáturinn í notkun hérlendis var landhelgisflugvélin TF-RÁN, til ársins 1963.Um þátt Catalinu í íslensku flugsögunni má heyra nánar um í þessari frétt Stöðvar 2 frá árinu 2012:


Tengdar fréttir

Flugkappar í útsýnisflugi með Catalina flugbáti

Þrír flugkappar fengu að fara í útsýnisflug með Catalina flugbáti yfir Reykjavík í dag. Kapparnir eiga það sameiginlegt að hafa flogið slíkum vélum þegar þær voru notaðar til farþegaflugs hér á landi á árunum eftir stríð.

Catalina markaði djúp spor í flugsögu Íslands

Íslenskir flugáhugamenn fá langþráðan draum uppfylltan á Reykjavíkurflugvelli um helgina; að skoða Catalina-flugbát en þessar vélar hafa markað hvað dýpst spor í íslenska flugsögu. Íslendingar kynntust Catalinum fyrst á stríðsárunum þegar þær gegndu lykilhlutverki í hernaði Bandamanna gegn kafbátum Þjóðverja á Atlantshafinu.

Catalina á leið til Íslands

Catalina-flugbátur er væntanlegur til Íslands á fimmtudag og verður hann hápunkturinn á flugdegi sem Flugmálafélag Íslands heldur á Reykjavíkurflugvelli á laugardag í tilefni af 75 ára afmæli Icelandair. Þetta verður í fyrsta sinn í áratugi sem almenningi hérlendis gefst kostur á því að skoða í návígi og sjá Catalinu á flugi, að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, stjórnarmanns í Flugmálafélaginu.

Frábær flugsýning - myndir

Boðið var upp á 25 flugatriði í lofti á flugsýningunni á Reykjavíkurflugvelli í dag. Meðal annars sveif Catalina tignarlega yfir Reykjavíkurborg áhorfendum til skemmtunar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.