Innlent

Catalina markaði djúp spor í flugsögu Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íslenskir flugáhugamenn fá langþráðan draum uppfylltan á Reykjavíkurflugvelli um helgina; að skoða Catalina-flugbát en þessar vélar hafa markað hvað dýpst spor í íslenska flugsögu.Íslendingar kynntust Catalinum fyrst á stríðsárunum þegar þær gegndu lykilhlutverki í hernaði Bandamanna gegn kafbátum Þjóðverja á Atlantshafinu. Fyrir stríðslok höfðu Íslendingar sjálfir tekið þær í notkun, og þær mörkuðu ekki aðeins upphaf millilandaflugs íslenskra flugfélaga heldur lögðu einnig grunn að innanlandsfluginu og landhelgisgæslu Íslendinga úr lofti.Nú þegar hartnær 40 ár eru liðin frá því Catalinur voru teknar úr notkun hérlendis gefst landsmönnum færi á að komast í tæri við þessa sögufrægu vél á ný og margir flugáhugamenn gátu ekki beðið og mættu út á Reykjavíkurflugvöll í gærkvöldi til að fylgjast með komu þessa forngrips. Þetta eintak var smíðað árið 1943 og kemur frá Duxford-flugminjasafninu í Bretlandi.Catalinan verður helsti sýningargripurinn á flugdegi á mánudag, annan í hvítasunnu, milli klukkan 12 og 16, og er aðgangur ókeypis. Flugsýning fer fram í lofti yfir Reykjavíkurflugvelli milli klukkan 13 og 15, meðal annars listflug og nákvæmnisflug á þyrlu, en flugdagurinn er haldinn í tilefni 75 ára afmælis Icelandair.Þar verður einnig hægt að fara um borð í Boeing 757 þotu Icelandair. Þotan lendir fyrr um morguninn og síðan verður hægt að fylgjast með flugtaki hennar í sýningarlok en þetta eru stærstu vélar sem notað hafa Reykjavíkurflugvöll.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.