Erlent

Enn mótmælt í Hong Kong

Pálmi Kormákur skrifar
Mótmælt í Hong Kong. Á myndinni má sjá Joshua Wong, aðgerðasinni stúdenta á mótmælunum.
Mótmælt í Hong Kong. Á myndinni má sjá Joshua Wong, aðgerðasinni stúdenta á mótmælunum. Fréttablaðið/EPA

Jimmy Sham, frá Civil Human Rights Front mótmælahópnum, segir um tvær milljónir manna hafi mætt á sunnudaginn, sem eru tvöfalt fleiri en mættu 9. júní síðastliðinn á fyrstu mótmælunum.

Nú segja forystumenn mótmælanna að kröfum fólksins verði ekki fullnægt fyrr en lagabreytingin fyrirhugaða verði dregin til baka og afsögn Carrie Lam, æðsta stjórnanda kínverska sjálfsstjórnarhéraðsins Hong Kong, verði tilkynnt. Lam lagði til lagabreytinguna sem varð kveikja mótmælanna. Þessu greinir vefur South China Morning Post frá.

Lam hefur síðan beðist afsökunar í opinberri yfirlýsingu frá ríkisstjórn Hong Kong og segist ríkisstjórnin skilja að mótmælin eigi rætur að rekja til „ástar og umhyggju fyrir Hong Kong“ og að Lam muni tileinka sér „einlægari og auðmjúkari viðhorf“ gagnvart gagnrýni frá almenningi.

Merki þess að ríkisstjórn Hong Kong hafi áhuga á að koma til móts við mótmælendur má einnig sjá annars staðar en Joshua Wong, einum helsta aðgerðasinna stúdenta í Hong Kong, var sleppt úr fangelsi í gær.

Wong, sem er 22 ára, varð andlit regnhlífarhreyfingannar 2014, en þá snerust mótmælin um að íbúar Hong Kong fengju að kjósa sína eigin leiðtoga. Mótmælin stóðu þá í 79 daga en mótmælendur settu upp tjaldbúðir í miðju fjármálahverfi borgarinnar og lömuðu alla starfsemi þar. Wong sagðist á blaðamannafundi eftir að hann var látinn laus vera tilbúinn að taka slaginn og kallaði eftir afsögn Lam.

Þó er þetta „of lítið, of seint“ fyrir marga mótmælendur, sem verða ekki sáttir fyrr en Lam segir af sér og lagabreytingin er dregin til baka að sögn Helier Cheung hjá BBC í Hong Kong, sem birti fréttaskýringu um málið í gær.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.