Erlent

Fundu lík fimm fjall­göngu­manna í Himalaja

Atli Ísleifsson skrifar
Fjallgöngumennirnir voru að reyna að klífa Nanda Devi, næsthæsta fjall Indlands.
Fjallgöngumennirnir voru að reyna að klífa Nanda Devi, næsthæsta fjall Indlands. Getty
Flugmenn í indverska hernum hafa fundið lík fimm fjallgöngumanna í fjöllum Himalaja. Talið er að hin látnu úr hópi átta göngumanna sem hefur verið leitað í rúma viku.

Líkin sáust úr lofti, en hermennirnir í vélunum þurftu frá að hverfa vegna slæmra veðuraðstæðna á staðnum. Leitaraðgerðum verður fram haldið á morgun.

Skipulögð leit að hópnum hefur staðið í þrjá daga, en síðast spurist til þeirra þann 26. maí síðastliðinn. Vitað var að snjóflóð féll á svæðinu um það leyti. Talsmaður indverskra yfirvalda segir að allir átta í hópnum séu taldir af.

Í hópnum voru fjórir breskir ríkisborgarar, tveir bandarískir, einn ástralskur og einn indverskur. Fjallgöngumennirnir voru að reyna að klífa Nanda Devi, næsthæsta fjall Indlands.

Hópurinn hóf göngu sína þann 13. maí og áttu að snúa aftur til grunnbúða í sex þúsund metra hæð þann 26. maí.

Mikið hefur verið fjallað um öryggi fjallgöngumanna í Himalaja að undanförnu, sér í lagi á Everest þar sem ellefu hafa látið lífið það sem af er ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×