Enski boltinn

Eriksen vill prófa eitthvað nýtt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Eriksen í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á dögunum.
Eriksen í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á dögunum. vísir/getty
Christian Eriksen, miðjumaður Tottenham og danska landsliðsins, segir í viðtali við Ekstra Bladet að hann gæti gott hugsað sér að yfirgefa Tottenham í sumar. Það þurfi þó að vera skref upp á við.

Eriksen á einungis eitt ár eftir af samningi sínum við Lundúnarliðið og hann segir að hann gæti vel hugsað sér að prófa eitthvað nýtt eftir að hafa spilað hjá þeim hvítklæddu í sex ár.

„Ég ber mikla virðingu fyrir öllu sem hefur gerst hjá Tottenham og það yrði ekki neikvætt að vera áfram en ég hef einnig sagt að ég vil gjarnan prófa eitthvað nýtt,“ sagði Eriksen í samtali við Ekstra Bladet.

„Ég vona að það verði komist að niðurstöðu einhverntímann í sumar. Það er planið. Í fótbolta veit maður ekki hvað gerist og hvenær. Það getur gerst hvenær sem er.“

„Þetta veltur á Daniel Levy og hvort að það sé eitthvað annað félag. Annars sest ég að borðinu og ræði nýjan samning,“ bætti Daninn við úr æfingabúðum danska landsliðsins sem undirbýr sig fyrir leiki gegn Georgíu og Írlandi.

Real Madrid hefur reglulega verið orðað við Danann og hann segir að fari hann frá Tottenham verði það að vera skref upp á við. Það skilyrði uppfylli Real Madrid.

„Það er ekki mikið sem Tottenham getur ekki uppfyllt og fari ég skal það vera skref upp á við. Real er skref upp á við en það krefst þess að Real hringi og segi að þeir vilji mig. Það hafa þeir ekki gert,“ sagði Daninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×