Íslenski boltinn

Blikar búnir að selja bakvörðinn sinn til Belgíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Hendrickx, í miðjunni, fagnar með þeim Damir Muminovic og Viktori Erni Margeirssyni.
Jonathan Hendrickx, í miðjunni, fagnar með þeim Damir Muminovic og Viktori Erni Margeirssyni. Vísir/Bára
Jonathan Hendrickx spilar aðeins nokkra leiki til viðbótar með Breiðabliki í Pepsi Max deild karla í fótbolta.

Breiðablik hefur samþykkt tilboð frá belgíska 1.deildarliðinu Lommel í bakvörðinn. Johnathan mun yfirgefa Breiðablik í félagaskiptaglugganum í júlí en þetta kemur fram á blikar.is.

„Jonathan er mikill fagmaður og hefur verið mjög öflugur í Blikaliðinu í þeim 48 mótsleikjum sem hann hefur spilað fyrir Breiðablik til þessa frá því að hann kom til okkar fyrir keppnistímabilið 2018. Við ætlum ekki að kveðja Jonathan alveg strax þar sem hann á eftir að sýna snilli sína í næstu leikjum,“ segir í fréttinni á síðunni.

Jonathan Hendrickx hefur spilað sex af sjö leikjum Breiðabliks í Pepsi Max deildinni í sumar. Hann hefur ekki skorað mark en er búinn að gefa tvær stoðsendingar og eiga þátt í undirbúningi á einu öðru marki.

Breiðablik komst upp í efsta sæti deildarinnar með 4-1 sigri á FH í síðustu umferð en Jonathan Hendrickx lék einmitt með FH á árum áður.

Blikar spila þrjá deildarleiki fyrir 1. júlí eða á móti Fylki, Stjörnunni og ÍBV og þá spilar liðið á móti KR á útivelli 1. júlí. Blikar eiga líka leik á móti Fylki í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins 27. júní næstkomandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×