Erlent

Bretar segja rússnesk stjórnvöld þurfa að haga sér

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Pútín vill hætta að tala um Skrípal.
Pútín vill hætta að tala um Skrípal. Nordicphotos/AFP
Samband Bretlands og Rússlands batnar ekki nema rússnesk stjórnvöld breyti hegðun sinni. Þetta sagði upplýsingafulltrúi Ther­esu May, breska forsætisráðherrans, í gær. Samband ríkjanna hefur verið afar stirt að undanförnu og þá sérstaklega eftir að eitrað var fyrir fyrrverandi rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skrípal og dóttur hans í Salisbury á síðasta ári.

„Við höfum verið afdráttarlaus og sagt að árásargirni og viðleitni Rússa til að skapa óreiðu grafi undan fullyrðingum þeirra um að ríkið geti verið ábyrgur samstarfsaðili,“ hafði Reuters eftir upplýsingafulltrúanum.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sagðist fyrr í gær vona að næsti forsætisráðherra Bretlands, valinn í komandi leiðtogakjöri Íhaldsflokksins, gæti leyft sér að gleyma efnavopnaárásinni í Salisbury og þannig einbeitt sér að því að bæta sambandið. Rússar hafa frá upphafi neitað ábyrgð í málinu en Bretar og fleiri ríki vísuðu rússneskum erindrekum úr landi vegna Skrípal-árásarinnar. Tveir Rússar hafa verið ákærðir í Bretlandi fyrir morðtilraun vegna málsins.

„Hnattræn vandamál sem tengjast sameiginlegum hagsmunum á sviði efnahags-, félags- og varnarmála eru mun mikilvægari en leikir leyniþjónusta. Ég tala hér sem sérfræðingur, trúið mér. Við þurfum að hætta að einbeita okkur að smámálum sem þessu og fara að ræða það sem raunverulega skiptir máli,“ sagði Pútín og tók fram að bætt samskipti væru góð fyrir þau hundruð breskra fyrirtækja sem hafa starfsemi í Rússlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×