Erlent

Bandaríkjamenn undrandi yfir tísti Trump um geimferðir: „Tunglið er hluti af Mars“

Andri Eysteinsson skrifar
Forsetinn vill að einbeiting NASA sé á Mars en ekki tunglinu.
Forsetinn vill að einbeiting NASA sé á Mars en ekki tunglinu. Samsett/Getty
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, gagnrýndi í dag áform bandarísku geimferðastofnunarinnar um að halda aftur til tunglsins.

Tíst forsetans um málið hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum í dag en svo virðist, við fyrstu sýn, að forsetinn haldi því fram að Tunglið sé hluti plánetunnar Mars.

Í sumar verða liðin 50 ár frá því að Neil Armstrong steig fæti á tunglið, fyrstur manna. Armstrong var fyrstur tólf manna sem stigu fæti á tunglið á árunum 1969 til 1972. Voru ferðir þeirra hluti af Apollo verkefni NASA. Nú áætlar NASA að árið 2024 verði haldið til tunglsins til þess að koma þar upp bækistöðvum til þess að auðvelda lengri geimferðir, til dæmis til plánetunnar Mars.

Donald Trump gagnrýndi stofnunina á Twitter síðu sinni í dag. Trump sagði að miðað við það fjármagn sem NASA er veitt á hverju ári ætti stofnunin ekki að stefna í átt að tunglinu. Slíkt hafi þegar verið gert, fyrir fimmtíu árum síðan, heldur ætti áherslan að vera á stærri og merkilegri hlutum.

Þar taldi Trump upp ferðir til Mars, Varnarmál og vísindastarf. Tíst Trump hefur þó vakið athygli netverja en í upptalningu sinni sagði Trump tunglið vera hluta plánetunnar Mars.

Líklegt er þó að forsetinn hafi eingöngu átt við að ferð til tunglsins sé hluti af áðurnefndum áætlunum NASA sem viðkomustaður á leiðinni til Mars. Forsetinn hefur þá einnig verið gagnrýndur fyrir stefnu sín um að halda ekki til tunglsins vegna annars tísts hans frá því fyrir tæpum mánuði. Sagði Trump þá að hann hygðist veita miklu fé í NASA til þess að koma Bandaríkjunum, aftur út í geim, á stóran hátt.

Gerði Trump þá ráð fyrir 1.6 milljörðum dala til NASA til þess að setja af stað áætlanir um ferðir á Tunglið og Mars.

Vísindamenn, fjölmiðlar og aðrir hafa flykkst til og hafa greint forsetanum frá því að Tunglið sé vissulega ekki hluti af Mars. Mars hefur þó tvö tungl, Fóbos og Deimos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×