Íslenski boltinn

Haukar björguðu stigi á Grenivík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukar bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í Inkasso-deildinni í sumar.
Haukar bíða enn eftir sínum fyrsta sigri í Inkasso-deildinni í sumar. vísir/andri marinó
Magni og Haukar skildu jöfn, 1-1, í fyrsta leik 5. umferðar Inkasso-deildar karla í dag. Bæði lið eru enn án sigurs í deildinni á tímabilinu.

Haukar eru þó væntanlega sáttari með úrslit leiksins í dag en Daði Snær Ingason skoraði jöfnunarmark þeirra í uppbótartíma. Skömmu áður fékk Bjarni Aðalsteinsson, leikmaður Magna, sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Staðan var markalaus í hálfleik en Kristinn Þór Rósbergsson kom Magnamönnum yfir á 55. mínútu og það mark virtist ætla að duga þeim til sigurs. Daði Snær var hins vegar á öðru máli og jafnaði á ellefu stundu fyrir gestina úr Hafnarfirðinum.

Þetta var fyrsti leikur Hauka eftir að Kristján Ómar Björnsson hætti sem þjálfari liðsins. Búi Vilhjálmur Guðjónsson stýrði Haukum á Grenivík í dag.

Haukar eru með fimm stig í 10. sæti deildarinnar en Magni í því tólfta með tvö stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×