Íslenski boltinn

„Dómarinn kallaði okkar leikmenn aumingja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Kristinn var ekki sáttur með dómara leiksins, Sigurð Hjört Þrastarson.
Jóhann Kristinn var ekki sáttur með dómara leiksins, Sigurð Hjört Þrastarson. mynd/stöð 2 sport
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs, kvaðst stoltur af sínum mönnum eftir tapið fyrir KR, 0-2, í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í dag. Hann var hins vegar allt annað en sáttur með frammistöðu dómara leiksins, Sigurðar Hjartar Þrastarsonar, og sakaði hann um hroka í garð sinna leikmanna.

„Það hvernig þessi leikur fór kom dómaranum ekkert við en ég ætla að biðja hann afsökunar á að þurfa að draga hann hingað í leik. Hann var ekki stemmdur í það og átti mjög erfitt með sig, að þurfa að koma alla leið hingað og dæma hjá liði á þessu getustigi,“ sagði Jóhann eftir leikinn í dag.

„Það kristallaðist í því að hann kallaði okkar leikmenn aumingja. Það var ljótt að sjá en hann átti ekki sök á tapinu. En þegar við komumst nálægt markinu þeirra var hann tilbúinn með flautuna.“

Jóhann var sáttur með frammistöðu sinna manna þótt úrslitin hafi ekki verið honum að skapi.

„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Ég vil óska KR til hamingju með sigurinn sem þeir þurftu að hafa mikið fyrir. Allt tal um að þeir hafi spilað illa er tilkomið vegna þess hvernig við spiluðum,“ sagði Jóhann.

„Við erum ósáttir að hafa ekki komist áfram. Mér fannst strákarnir gera þetta gríðarlega vel. Það er leiðinlegt að ná ekki að skora.“

Jóhann segist hafa lagt upp með að setja meiri pressu á KR-ingana en það hafi ekki tekist.

„Við ætluðum að pressa meira á þá en þetta er frábært lið. Við lágum meira til baka og vörðum markið okkar. Þeir fengu ekki mörg frábær færi en komust yfir með þessu skítamarki,“ sagði Jóhann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×