Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Fylkir 1-0 | Annar sigur Grindavíkur í röð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fylkismenn fá erfitt verkefni í kvöld.
Fylkismenn fá erfitt verkefni í kvöld. vísir/daníel þór
Grindavík vann sinn annan sigur í röð í Pepsi-Max deild karla í kvöld þegar þeir lögðu Fylkismenn á Mustad-vellinum suður með sjó. Josip Zeba skoraði sigurmarkið í síðari hálfleik og Grindvíkingar eru ósigraðir í síðustu fjórum leikjum.

Fylkismenn byrjuðu mun betur og heimamenn komust varla yfir miðju fyrstu 10 mínúturnar. Síðan rönkuðu þeir við sér og leikurinn jafnaðist út. Bæði lið sköpuðu sér ágætis möguleika en vantaði aðeins meiri gæði á síðasta þriðjungi vallarins.

Sigurmarkið kom síðan á 75.mínútu þegar miðvörðurinn Josip Zeba skoraði með skalla eftir hornspyrnu Arons Jóhannssonar.

Fylkismenn reyndu hvað þeir gátu til að pressa heimamenn það sem eftir lifði leiks en náðu ekki að skapa sér almennilegt færi. Grindvíkingar fögnuðu því sætum sigri og eru komnir með 8 stig í Pepsi-Max deildinni.

Af hverju vann Grindavík?

Leikir ráðast oft á smáatriðum og þannig varð raunin í kvöld. Grindvíkingar voru ekki endilega mikið betra liðið út í á vellinum en skoruðu markið sem skiptir máli. Hvorugu liðinu gekk sérlega vel að skapa sér almennileg færi og í raun benti flest til þess að leikurinn myndi enda með markalausu jafntefli.

Fylkismenn hljóta að vera afskaplega svekktir að fá á sig mark úr föstu leikatriði og Helgi þarf að rýna í þjálfarabækurnar til að finna lausn við þessum vanda liðsins.

Þessir stóðu upp úr:

Miðverðirnir Zeba og Mark Mcausland voru báðir mjög sterkir í hjarta Grindavíkurvarnarinnar. Mcausland átti tvær magnaðar tæklingar þegar Fylkismenn voru komnir í fín færi og Zeba skoraði sigurmarkið auk þess að bjarga á marklínu.

Elias Tamburini var sömuleiðis ógnandi og skapaði usla með hlaupum sínum upp vinstri kantinn.

Hjá Fylki var vörn liðsins nokkuð traust fyrir utan þegar þeir fengu á sig markið. Kolbeinn Birgir var nokkuð líflegur en það kom lítið út úr því sem hann reyndi að gera.

Hvað gekk illa?

Eins og áður segir eru Fylkismenn í vandræðum með föstu leikatriðin. Þeir hafa ekki enn fengið mark á sig úr opnum leik og því hlýtur það að vera einstaklega pirrandi fyrir Helga þjálfara að sjá liðið fá á sig þessi mörk.

Auk þess geta bæði liðin gert betur í að skapa þessi algjöru dauðafæri en oft vantaði þó bara herslumuninn upp á.

Þá verð ég að minnast á hornspyrnur Alexanders Veigars Þórarinssonar í dag. Hann tók þrjár spyrnur og þær fóru allar beint afturfyrir endamörk, þar af ein sem hann ætlaði að taka stutt. Mark Grindavíkur kom síðan upp úr horni sem Aron Jóhannsson tók.

Hvað gerist næst?

Grindavík er komið í 6.sæti deildarinnar en Fylkir situr í 8.sæti. Grindvíkingar halda næst í Kópavoginn og mæta þar HK sem tapaði gegn KR í kvöld.

Fylkir á næst leik gegn FH á heimavelli. Ekki auðveldur leikur en Helgi Sigurðsson og félagar þurfa að fara að setja fleiri stig á töfluna á næstunni ef ekki á illa að fara.

Helgi: Þurfum að fara að ranka við okkur
Helgi Sigurðssonvísir/bára
„Þetta var mjög svekkjandi, að fá mark á sig aftur úr föstu leikatriði er ekki nógu gott hjá okkur. Leikurinn var mestmegnis jafn og bæði lið að gefa allt í þetta, mikil barátta og læti og ekki mikið um færi. Súrt að fá á sig mark í lokin,“ sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir leikinn gegn Grindavík í kvöld.

Rétt áður en Grindvíkingar komust yfir hafði Helgi skipt um menn í sókninni og sett Geoffrey Castillion inná sem byrjaði á bekknum í kvöld.

„Við ætluðum að sækja til sigurs en við breyttum ekki það miklu, settum framherja fyrir framherja. Við þurfum auðvitað bara að dekka í föstum leikatriðum og þetta er hlutur sem þarf að vera í lagi, að vera með einbeitingu í 90 mínútur. Það er ekki nóg að vera með það í 89 og okkur er refsað grimmilega fyrir svona mistök,“ bætti Helgi við en Fylkismenn eru án sigurs í síðustu fjórum leikjum.

„Það er nóg eftir af þessu móti en við þurfum að fara að ranka við okkur. Mér fannst frammistaðan verðskulda eitt stig að lágmarki. Maður getur verðskuldað og verðskuldað ekki, við áttum að fá fleiri stig gegn Val síðast en fengum ekkert. Þetta er bara spurning um einbeitingu og nýta færin þegar þau koma.“

Helgi er þó ekkert farinn að örvænta þrátt fyrir magra stigasöfnun undanfarið.

„Ég hef ekkert áhyggjur af leik liðsins, við höfum ekki fengið á okkur mark úr opnum leik og liðin eru ekki að skapa mikið af færum á okkur. Ég hef smá áhyggjur af því að við séum ekki að skora nóg af mörkum og það er eitthvað sem við þurfum að finna svör við. Að öðru leyti er þetta jafnt mót og það er nóg eftir.“

Tufa: Er búinn að bjóða allskonar verðlaun fyrir að halda hreinu
Srdjan Tufegdzig.Vísir/Ernir
Srdjan Tufegdzig þjálfari Grindavíkur var afskaplega sáttur þegar Vísir ræddi við hann eftir leikinn gegn Fylki í kvöld.

„Við erum að bæta okkur í hverjum leik og þetta er eitthvað sem ég sagði eftir fyrsta leikinn þegar við töpuðum gegn Breiðablik. Ég sagði hvernig strákarnir eru að æfa og haga sér og að við myndum bæta okkur í hverri viku. Þetta verður svona í allt sumar held ég og ég er gríðarlega ánægður með strákana mína í dag,“ sagði Tufa kampakátur.

„Þetta var þriðji leikurinn á 10 dögum og þeir koma hingað í dag og skilja allt eftir á vellinum og þá uppsker maður þrjú stig.“

Grindavík er ósigrað í síðustu fjórum leikjum og eru komnir með 8 stig í Pepsi-Max deildinni. Þetta var í fyrsta sinn sem þeir héldu hreinu í sumar og miðverðirnir Mark Mcausland og Josip Zeba ná betur og betur saman með hverjum leiknum.

„Í dag var þetta algjörlega frábær frammistaða hvernig okkar leikur var í dag. Það var aðeins í lokin hérna sem þeir setja pressu en þetta hélt mjög vel. Þegar allir frá fremsta manni vinna sína vinnu á vellinum þá heldur maður hreinu.“

„Ég er búinn að bjóða strákunum alls konar verðlaun fyrir að halda hreinu en það hefur ekki gengið, það kom í dag og er mjög ánægður,“ sagði Tufa og bætti við að byrjunin á mótinu væri nokkuð ásættanleg.

„Ég held ég geti sagt það. Eins og ég sagði síðast þá vildum við fá fleiri stig gegn Stjörnunni og Breiðablik í fyrstu leikjunum en ég hef líka sagt að þetta yrði okkar þróun og miðað við hvernig við erum að bæta okkur þá skiptir það höfuðmáli.“

Zeba: Frábær stemmning hjá öllu félaginu
Úr leik hjá Grindavík.vísir/Hanna
Josip Zeba skoraði sigurmark Grindavíkur í dag og var frábær í varnarleik liðsins. Hann var vitaskuld ánægður með sitt fyrsta mark í Pepsi-Max deildinni.

„Fyrst og fremst verð ég að hrósa liðsfélögum mínum og þjálfurunum. Við höfum æft vel og ég held að við eigum þetta skilið. Það er gaman að skora, sérstaklega fyrir varnarmann, en það er ekki aðalatriðið. Það sem skiptir máli að liðið skori og að við vinnum leikinn,“ sagði miðvörðurinn geðþekki sem hefur náð mjög vel saman með Mark Mcausland í hjarta varnarinnar.

„Ég er nýr og hann líka en við höfum aðlagast mjög vel. Hann er frábær náungi og það gerir það auðveldara, samskipting verða betri. Bakverðirnir báðu megin eru líka að standa sig vel og ég get sagt það um alla í liðinu.“

„Það er frábær stemmning hjá okkur og hjá öllu félaginu. Það gerir allt auðveldara því við erum með nýtt lið hérna,“ sagði Zeba að lokum.

Helgi Valur: Engin krísa eins og er
Helgi Valur DaníelssonVísir
„Mér fannst við eiga skilið stig svona eins og þetta spilast. Við fáum mark á okkur úr föstu leikatriði en annars fannst mér við verjast vel og vera inni í leiknum. Við sköpuðum ekki nóg fannst mér heldur og það er svekkjandi að tapa annan leikinn í röð á föstu leikatriði þar sem við gleymum okkur,“ sagði Helgi Valur Daníelsson í samtali við Vísi eftir leik.

Föstu leikatriðin hafa verið að valda Fylkismönnum vandræðum í upphafi móts.

„Við höfum ekki enn fengið á okkur mark úr opnum leik. Við verðum að einbeita okkur að þessu sem er að klikka. Það er líka hægt að ofhugsa þetta og ætla að læra að dekka upp á nýtt. Ég held að það sé ekki málið en við þurfum að bæta sóknarleikinn og fara að skora tvö mörk og skapa meira,“ bætti Helgi við og sagði að Fylkismenn væru ekki farnir að örvænta þrátt fyrir fjóra leiki án sigurs.

„Nei nei, það er auðvelt að segja að þetta sé nýbyrjað og stutt á milli. Mér finnst við vera að spila góðan fótbolta og það vantar herslumuninn bæði í sókn og vörn. Við þurfum að skapa aðeins meira en mér finnst vera sjálfstraust í liðinu og við erum með sterkan hóp. Það er engin krísa eins og er.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira