Erlent

Leystir frá störfum fyrir að draga umfang Helfararinnar í efa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Al Jazeera er meðal fremstu miðla þegar kemur að málefnum Mið-Austurlanda.
Al Jazeera er meðal fremstu miðla þegar kemur að málefnum Mið-Austurlanda. Olivier Polet/Getty
Fréttaveitan Al Jazeera hefur sagt tveimur blaðamönnum upp störfum eftir að þeir framleiddu myndband í nafni miðilsins þar sem dregið var í efa að Helförin hafi raunverulega átt sér stað á þann hátt sem sagnfræðingar sammælast um.

Í myndbandinu er því haldið fram að fjöldi þeirra gyðinga sem týndu lífi þegar nasistar útrýmdu þeim á skipulagðan hátt á fimmta áratug síðustu aldar sé stórlega ýktur og þær ýkjur séu runnar undan rifjum síonistahreyfingarinnar. Ísrael sé sá aðili sem hafi hagnast hvað mest á þjóðarmorðunum.

Síonismi er afbrigði þjóðernishyggju sem grundvallast á því að gyðingar, sem þjóð, eigi rétt á eigin landi.

Myndbandið var birt á Facebook- og Twitter-síðum Al Jazeera með textanum „Hver er sannleikurinn á bak við Helförina og hvernig hagnaðist síonistahreyfingin á henni?“ Innleggin voru á arabísku á báðum miðlum en þau fengu mikla gagnrýni eftir að bandarísk samtök, Stofnun um rannsóknir á málefnum Mið-Austurlanda (Memri) tísti enskri útgáfu af þeim. Því hefur nú verið eytt.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Ísraels sagði myndbandið vera „verstu birtingarmynd skaðlegrar illsku.“

Medhi Hasan, einn þekktasti blaðamaður Al Jazeera, sagðist í kjölfar brottrekstrar blaðamannanna tveggja „ánægður að yfirmenn Al Jazeera hafi tekið á málinu af festu“ vegna myndbandsins sem hann sagði vera „fáránlega móðgandi og heimskullegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×