Íslenski boltinn

Gott fyrir Valsmenn að skoða töfluna frá því á sama tíma í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fagna marki Ólafs Karls Finsen í Krikanum í gær.
Valsmenn fagna marki Ólafs Karls Finsen í Krikanum í gær. Vísir/Vilhelm

Titilvörn Vals hefur ekki byrjað vel en liðið situr í 9. sæti Pepsi Max deildar karla eftir fimm umferðir og er heilum níu stigum á eftir topplið ÍA.

Það er hins vegar mikið eftir af Íslandsmótinu og það væri gott fyrir leikmenn Valsliðsins að skoða töfluna frá því á sama tíma í fyrra.

Valsliðið var nefnilega bara í áttunda sæti eftir fyrstu fimm umferðirnar fyrir ári síðan.

Valur var reyndar með tveimur stigum meira þá og fjórum stigum nær toppsætinu en það breytir ekki því að Hlíðarendapiltar komust í gegnum erfiða byrjun fyrir ári síðan.

Valsliðið tapaði 2-1 á útivelli á móti Grindavík í 5. umferðinni sumarið 2018 en það var fyrsta deildartap liðsins á leiktíðinni.

Tapið á móti FH á Kaplakrikavelli í gær var aftur á móti þriðja deildartap liðsins í sumar en liðið tapaði einnig fyrir KA (0-1) og ÍA (1-2).

Valsmenn hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár en byrjuðu þau tímabil mjög ólíkt. Valsliðið var í 2. sæti með 10 stig eftir fimm fyrstu leikina sumarið 2017.

Valsliðið fór á mikið flug eftir tapið í fimmtu umferðinni í fyrra og vann þá næstu sex leiki sína. Það þýddi að eftir ellefu umferðina þá var Valur með tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar.

Það að Valsmenn séu nú þremur sigurleikjum frá toppsætinu þýðir að liðið þarf að fara að vinna leiki ætli liðið sér að vinna Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð. Næstu tveir andstæðingar eru samt ekki að auðveldari gerðinni heldur lið Breiðabliks og lið Stjörnunnar.

Valsmenn eftir fimm umferðir 2019
9. sæti
4 stig í húsi
7 mörk skoruð
-2 í markatölu (7-9)
9 stig frá toppnum

Valsmenn eftir fimm umferðir 2018
8. sæti
6 stig í húsi
7 mörk skoruð
0 í markatölu (7-7)
5 stig frá toppnum
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.