Enski boltinn

Van Persie: Ole Gunnar Solskjær er rétti maðurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær með leikmönnum sínum eftir tapið á móti Cardiff í lokaumferðinni.
Ole Gunnar Solskjær með leikmönnum sínum eftir tapið á móti Cardiff í lokaumferðinni. Getty/James Baylis

Robin van Persie, fyrrum leikmaður Manchester United, er sannfærður um það að gamla félagið hans sé að gera rétt með því að fastráða Ole Gunnar Solskjær sem knattspyrnustjóra félagsins.

Van Persie vill að Norðmaðurinn fá sinn tíma til að snúa við þróuninni á Old Trafford síðustu ár en félagið hefur verið á niðurleið síðan að Sir Alex Ferguson hætti og var aldrei nálægt titilbaráttunni á nýloknu tímabili.

Solskjær byrjaði frábærlega eftir að hann tók tímabundið við af Jose Mourinho en eftir að hann var fastráðinn þá gekk allt á afturfótunum hjá liðinu sem endaði að lokum jafnmörgum stigum frá efsta liðinu (Manchester City) og liðinu sem féll (Cardiff).

„Hann passar fullkomlega í þetta starf. Þeir áttu bara slæman kafla undir lok tímabilsins,“ sagði Robin van Persie sem var að leggja skóna á hilluna á dögunum eftir að hafa endaði ferilinn með Feyenoord heima í Hollandi.„Hér áður fyrr var það fullkomlega eðlilegt að gefa nýjum knattspyrnustjóra tíma með liðið. Í dag er bara búið að reka þig ef þú tapar sex leikjum. Er það lausnin?,“ spyr Van Persie.

„Gefið honum tíma ekki síst þar sem þetta er strákur úr félaginu,“ sagði Robin van Persie.

United vann fyrstu átta leikina undir stjórn norska stjórans og lék fimmtán leiki í röð án taps í deild og bikar. Solskjær var fastráðinn 28. mars skömmu eftir endurkomu United-liðsins á móti í Meistaradeildinni. Þá snerist taflið við.

Manchester United endaði síðan tímabilið með 6 töp og aðeins 2 sigra í síðustu 10 leikjunum sínum.

„Þetta er svolítið fyndið því allir voru svo jákvæðir þegar hann byrjaði. Þeir voru að vinna og framkölluðu kraftaverk með því að vinna PSG. Allir voru að öskra eftir fastráðningu. Eftir að hún var í höfn þá yfirgaf lukkan liðið og þeir hafa verið að tapa allt of mörgum leikjum,“ sagði Van Persie.

„Hann fékk þriggja ára samning og allir ættu að horfa á stóru myndina í þessu. Sjáið hvernig hann kemur fyrir og hvernig hann talar um klúbbinn. Hann fer rétt að þessu. Hann er jákvæður, hann vill ná árangri og það er eina leiðin fram á við,“ sagði Van Persie.

„Hann er United-maður í gegn. Hann spilaði þarna í meira en tíu ár, skoraði mark sem færði félaginu Meistaradeildarbikarinn og var stórt hluti af liðinu á sínum tíma. Hann hefur síðan þjálfað varaliði og er Manchester United holdi klætt. Ferguson var Manchester United og Solskjær er það líka“ sagði Van Persie.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.