Erlent

Tókst ekki að varpa ljósi á hlut ríkisstjóra í rasískri árbókarmynd

Kjartan Kjartansson skrifar
Árbókarmyndin virtist líklega til að fella Northam ríkisstjóra á sínum tíma. Hann hefur hins vegar setið sem fastast.
Árbókarmyndin virtist líklega til að fella Northam ríkisstjóra á sínum tíma. Hann hefur hins vegar setið sem fastast. Vísir/EPA

Lögmenn sem voru ráðnir til að rannsaka rasíska mynd sem birtist á árbókarsíðu ríkisstjóra Virginíu í Bandaríkjunum gátu ekki varpað frekara ljósi á uppruna myndarinnar eða hvort að ríkisstjórinn væri sjálfur á myndinni. Hann hefur sjálfur þrætt fyrir að vera á myndinni og stóð af sér kröfur um afsögn í vetur.

Ralph Northam, ríkisstjóri Virginíu úr röðum demókrata, átti í vök að verjast í febrúar þegar hægrisinnaður vefmiðillinn hafði upp á rasískri mynd sem skreytti blaðsíðu hans í árbók læknaháskóla þar sem hann nam árið 1984. Á myndinni mátti sjá tvo menn. Annar þeirra hafði dekkt andlit sitt til að líkja eftir blökkumanni en hinn var klæddur kufli Kú Klúx Klan, haturssamtakanna alræmdu.

Í fyrstu baðst Northam afsökunar á myndinni en dró fljótt í land og þrætti fyrir að myndin væri af honum. Viðurkenndi hann þó að hann hefði dekkt andlit sitt fyrir Michael Jackson-gervi um svipað leyti.

Þrátt fyrir áköll um að Northam sæti áfram, þar á meðal frá fimm frambjóðendum í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar, sat hann sem fastast.

Myndin eldfima var í árbók Læknaskóla Austur-Virginíu frá 1984. Vísir/AP

Fundu engar upplýsingar um myndina

Læknaskóli Austur-Virginíu réði lögfræðistofu til að rannsaka árbókarmyndina. Reuters-fréttastofan segir að lögmennirnir hafi ekki komist að niðurstöðu um hvort Northam væri raunverulega á myndinni. Ekkert vitni sem þeir ræddu við hafi fullyrt það eða getað sagt hver var á henni. Northam sjálfur hafi staðfastlega neitað að vera á myndinni og fullyrt að hann hafi aðeins sent inn aðrar myndir sem voru á síðunni.

„Við fundum engar upplýsingar um að myndin hafi verið sett inn fyrir mistök þó að við viðurkennum að það sé fátt um upplýsingar um þetta mál 35 árum síðar,“ segir í skýrslu lögmannanna.

Móðgangi myndir hafi verið algengar í árbókum nemenda. Þannig fundu lögmennirnir tíu sambærilegar myndir í árbókum frá 1976 til 2013. Sérstaklega hafi myndir af nemendum sem höfðu dekkt andlit sín verið algengar frá 1984 til 1985. Tvær slíkar myndir hafi verið í árbók Northam auk þeirrar sem var á hans síðu.

Vandræði Demókrataflokksins í Virginíu voru rétt að hefjast þegar árbókarmynd Northam var birt. Rétt á eftir var Justin Fairfax, vararíkisstjóri, sem hefði tekið við af Northam hefði hann sagt af sér, sakaður um kynferðisbrot. Mark Herring, dómsmálaráðherra Virginíu, sem var næstur í röðinni steig þá fram og viðurkenndi að hann hefði sömuleiðis dekkt andlit sitt til að bregða sér í gervi svarts rappara á háskólaárum sínum.

Skoðanakannanir benda til þess að Northam njóti enn stuðnings meirihluta blökkumanna í Virginíu. Meirihluta þeirra finnst að Northam ætti ekki að segja af sér vegna myndarinnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.