Erlent

Hakkarar halda Baltimore í gíslingu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lokað vegna tölvuárásar.
Lokað vegna tölvuárásar. Vísir/Getty
Bíræfnir tölvuþrjótar halda nú mikilvægum kerfum Baltimore-borgar í gíslingu. Tölvuþrjótarnir tóku yfir um tíu þúsund tölvur á vegum borgarinnar og krefjast þeir að fá 13 einingar af rafrænu myntinni Bitcoin í lausnargjald.

Þann 7. maí síðastliðinn létu tölvuþrjótarnir til skarar skríða með svokallaðri gagnagíslatökuárás (e. ransomware). Þannig tóku þeir yfir tölvurnar og hafa læst aðgengi að þeim þangað til þeir fá lausnargjaldið greitt.

Hefur þetta meðal annars leitt til þess að starfsmenn borgarinnar hafa ekki geta nálgast tölvupóst sinn og borgarar hafa ekki getað opnað vefsíður á vegum borgarinnar þar sem greiða má ýmsa reikninga og gjöld, þar á meðal vatnsveitureikninga, fasteignagjöld og stöðumælasektir.

Þetta er í annað sinn á rúmu ári sem Baltimore verður fyrir barðinu á gagnagíslatökuárás en á síðasta ári lokuðu tölvuþrjótar fyrir símtöl í 911, bandarísku neyðarlínunnar.

Tölvuþrjótarnir hafa sem fyrr segir farið fram á þréttán einingar af Bitcoin til þess að opna fyrir aðgang að kerfinu. Í dag eru 13 Bitcoin virði um 100 þúsund dollara, 13 milljóna króna. Virði Bitcoin sveiflast töluvert dag frá degi. Til merkis um það voru 13 Bitcoin virði um 75 þúsund dollara, um níu milljóna króna, daginn sem árásin var gerð.

Borgarstjórinn í Baltimore, Bernard Young, segir að það sé afstaða borgarinnar að greiða ekki lausnargjaldið. Það geti þó breyst dragist það á langinn að vinna bug á árásinni. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.