Íslenski boltinn

Fyrsti Reykjanesbæjarslagurinn í næstum því sextán ár í beinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingar hafa aldrei tapað deildarleik á móti Njarðvík.
Keflvíkingar hafa aldrei tapað deildarleik á móti Njarðvík. Vísir/Ernir
Það þekkja flestir vel viðureignir Keflavíkur og Njarðvíkur í körfuboltanum enda er sú viðureign jafnan kölluð „El Clasico“ íslenska körfuboltans. Í kvöld mætast Reykjanesbæjarliðin Keflavík og Njarðvík hins vegar í fjórðu umferð Inkasso-deildar karla í fótbolta.

Körfuboltaliðin mætast á hverju ári en það er meira en einn og hálfur áratugur síðan að fótboltalið félaganna mættust í deildarleik.

Bæði liðin hafa byrjað tímabilið mjög vel. Keflavík er með fullt hús (9 stig) eftir þrjá leiki og Njarðvíkingar hafa náð í sex stig af níu mögulegum.

Leikur kvöldsins fer fram á Rafholtsvelli þeirra Njarðvíkinga, hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Keflvíkingar hafa unnið þrjá góða sigra á á Fram (2-1), Magna (3-1) og Aftureldingu (5-0) en tveir af þeim hafa verið á heimavelli.

Njarðvíkingar töpuðu eina heimaleiknum sínum á móti Þór Akureyri (0-2) en unnu útileikina á móti Reykjavíkurfélögunum Þrótti (3-2) og Leikni (2-1).

Þetta er fyrsti deildarleikurinn á milli félaganna í næstum því sextán ár eða síðan að liðin mættust í 1. deild karla í september 2003.

Síðan þá hafa liðin ekki verið í sömu í deild, Keflvíkingar oftast í úrvalsdeildinni en Njarðvíkingar í mest í C-deildinni.

Keflavík vann báða leiki liðanna í 1. deildinni 2003, 2-0 í Njarðvík og 5-2 á heimavelli sínum.

Þetta eru einu deildarleikir liðanna og Njarðvík hefur því aldrei náð í stig á móti nágrönnum sínum í fótboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×