Enski boltinn

Liverpool fær miklu flottari búningsklefa í úrslitaleik Meistaradeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sóknarlína Liverpool er skipuð þeim Roberto Firmino, Mohamed Salah og Sadio Mane.
Sóknarlína Liverpool er skipuð þeim Roberto Firmino, Mohamed Salah og Sadio Mane. Getty/Michael Regan
Tottenham er skráð heimalið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um næstu helgi en þarf samt að sætta sig við að vera í klefa útiliðsins á Wanda Metropolitano leikvanginum í Madrid.

Úrslitaleikurinn fer fram 1. júní næstkomandi en hann hefst klukakn 19.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Liverpool liðið verður aftur á móti í búningsklefa Atletico Madrid liðsins sem er hinn glæsilegasti og miklu flottari en búningsklefinn þar sem gestir Atletico eru á leikjum sínum á Metropolitano leikvanginum.

Ástæðan fyrir þessu eru öryggisráðstafanir á leikvanginum eins undarlega og það hljómar.





Málið er að til að halda stuðningsmönnum félaganna aðskildum þá munu þeir koma að vellinum sitthvoru megin.

Stuðningsmenn Tottenham fengu miða á norðurhluta vallarins og því var ákveðið að Tottenham yrði í klefanum sem er þeim megin.

Liverpool verður aftur á móti í suðurhluta vallarins eða þeim megin á vellinum þar sem stuðningsmenn Liverpool liðsins fengu miða.

Búningsklefi Atletico Madrid er hinn glæsilegasti sem þarf ekki að koma mikið á óvart enda um glænýjan leikvang að ræða. Á meðan klefi Tottenham er hálfgerður kústaskápur en verður mjög rúmt um leikmenn og starfsmenn Liverpool.

Atletico Madrid hefur skipulagt sig vel fyrir þennan leik og enginn kemst nálægt vellinum án þess að hafa miða á leikinn. Stuðningsmenn liðanna verða því stöðvaðir nokkuð frá vellinum þar sem þeir þurfa að sýna gild miða. Engin bílaumferð verður heldur í eins kílómetra fjarlægð frá hinum.

Leikvangurinn tekur 68 þúsund manns í sæti en af öryggisástæðum verða aðeins 63 þúsund á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×