Innlent

Rannsókn á rútuslysi við Hof miðar vel

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í Öræfum fyrr í mánuðinum.
Frá vettvangi slyssins í Öræfum fyrr í mánuðinum. Vísir/Jói K.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að rannsókn á rútuslysinu sem varð við Hof fyrr í mánuðinum sé í fullum gangi og að henni miði vel.

Hann segir tildrög slyssins ekki liggja fyrir.

„Við gefum ekkert út um einhverja niðurstöðu fyrr en niðurstaðan liggur fyrir og mér finnst ekki tímabært að fara að bollaleggja neitt um það fyrr en við höfum alla þætti í hendi,“ segir Oddur.

Spurður út í hvenær áætlað sé að rannsókn ljúki segir Oddur að nú sé verið að afla vottorða um áverka þeirra sem slösuðust.

 

„Það tekur alltaf einhvern ákveðinn tíma en að öðru leyti mun rannsókn annarra þátta ljúka á næsta hálfa mánuðinum,“ segir Oddur.

Þá er bíltæknirannsókn lokið á rútunni og var hún afhent eigendum í fyrradag. Í rannsókninni var ástand rútunnar kannað og hvernig ástandið var fyrir slys og hvort það hafi mögulega verið einhverjir þættir sem gætu hafa orsakað slysið.

Oddur segist telja að allir þeir sem fluttir voru slasaðir á sjúkrahús séu nú útskrifaðir og að flestir farþeganna séu farnir af landi brott.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×