Innlent

Voru fæst í belti þrátt fyrir tilmæli bílstjóra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins á fimmtudag.
Frá vettvangi slyssins á fimmtudag. Vísir/Jói K.
Ferðamennirnir sem voru í rútunni sem valt við Hof í Öræfum á fimmtudag voru fæstir í belti, að sögn lögreglu. Búið er að ræða við bílstjóra rútunnar en hann hafði gefið farþegum tilmæli um að spenna beltin.

Fjórir voru fluttir alvarlega slasaðir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur en þrír þeirra voru enn á gjörgæslu í gær. Meiðsl annarra farþega voru minniháttar en alls voru ferðamennirnir í rútunni 32, allir frá Kína.

Sjá einnig: Þriðja stór­slysið á 100 kíló­metra kafla á Suður­lands­vegi

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að búið sé að ræða við flesta farþegana. Útlit sé fyrir að þeir hafi fæstir verið í bílbeltum þegar slysið varð.

„Þetta er mjög misskipt eftir þjóðarbrotum, eftir því hver menningin er. Og bílstjórar eru að lenda í vandræðum með mörg þjóðarbrot sem virða þetta ekki og hlusta ekki á tilmæli og ábendingar um að nota belti.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir með slasaða á Landspítalanum á fimmtudag.Vísir/Vilhelm
Sveinn segir að búið sé að ræða við bílstjóra rútunnar. Hann hafi gefið farþegum tilmæli um að spenna belti áður en haldið var af stað.

„Og ég veit að stærstur hluti bílstjóra er mjög samviskusamur með það. En það er ekki á þeirra ábyrgð að fólk sé í beltum, ekki nema fyrir þá sem eru undir fimmtán ára aldri. Þeir vissulega gefa allflestir upplýsingar og leiðsögumenn benda á þetta yfirleitt.“

Þá eru tildrög slyssins enn til rannsóknar en komið hefur fram að vegurinn á umræddum kafla er afar þröngur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×