Innlent

Foreldrar krefjast þess að óbólusett börn fái ekki leikskólapláss

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar
Foreldrar á Húsavík vilja ekki óbólusett börn á leikskólana.
Foreldrar á Húsavík vilja ekki óbólusett börn á leikskólana. Fréttablaðið/Valli
Fjölskylduráði Norðurþings barst listi með 80 undirskriftum á dögunum þar sem farið var fram á að börn sem ekki hafa hafið bólusetningaferli séu ekki tekin inn á leikskóla sveitafélagsins.Meirihluti þeirra sem setja nafn sitt á listann eru foreldrar leikskólabarna á Húsavík. Fjölskylduráð tekur vel í tillöguna en segir hana flókna í framkvæmd ásamt því að skoða þurfi allar hliðar málsins.Örlygur Hnefill Örlygsson, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, segir flókið að verða við þessari ósk: „Fólk hefur skilning á erindinu en afar flókið er að verða við því, til að mynda vegna félagslegrar einangrunar þeirra nemenda sem ekki myndu fara í leikskóla án þess að hafa sjálfir um það val hvort þeir væru bólusettir eða ekki,“ segir Örlygur Hnefill og bætir við að lagaleg staða til þess að bregðast við erindinu sé ekki skýr þar sem ekki sé skylda að bólusetja börn hér á landi.Öllum börnum með lögheimili á Íslandi stendur bólusetning til boða án endurgjalds en samkvæmt Embætti landlæknis er þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi ófullnægjandi.Fjölskylduráð Norðurþings hefur sent fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og hefur málinu verið frestað þar til álit frá ráðuneytinu hefur borist.Tillögur sem þessar hafa komið upp í fleiri sveitarfélögum landsins, svo sem í Reykjavík og í Garðabæ, þar sem þær hafa í báðum tilfellum verið felldar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.