Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Fylkir 1-1 | Valdimar tryggði Fylki stig í uppbótartíma

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valdimar Þór var hetja Fylkis í kvöld
Valdimar Þór var hetja Fylkis í kvöld vísir/bára
KR og Fylkir skildu jöfn 1-1 á Meistaravöllum í kvöld í þriðju umferð Pepsi Max deildar karla. Valdimar Þór Ingimundarson tryggði Fylki stig með marki í uppbótartíma.

Leikurinn var nokkuð lengi í gang, bæði lið að fikra sig áfram í vindinum í Vesturbænum, en svo dró til tíðinda eftir um kortersleik. Þá féll Pálmi Rafn Pálmason við í baráttu við Ólaf Inga Skúlason innan vítateigs Fylkis og Helgi Mikael Jónasson dómari dæmdi vítaspyrnu. Pálmi fór sjálfur á punktinn en Aron Snær Friðriksson varði vel frá honum.

Það virtist ekki vera mikið á þetta við fyrstu sýn og við endursýningar virðist brotið enn minna. Þeir Pálmi og Ólafur virðast bara hlaupa saman en Pálmi er með nokkur ár á bakinu og gerir vel í að ná í vítið. Fylkismenn geta því alveg sagt að réttlætinu hafi verið fullnægt þegar Aron varði vítið.

Eftir vítið fóru KR-ingar að pressa aðeins meira og á 33. mínútu uppskáru þeir mark. Óskar Örn Hauksson átti sprett inn á teiginn upp úr stuttri hornspyrnu Atla Sigurjónssonar, fyrirliðinn setti boltann inn í teiginn þar sem Tobias Thomsen kom fæti í boltann og setti hann í netið af stuttu færi.

Seinni hálfleikur var frekar tíðindalítill en KR-ingar fengu nokkur færi til þess að ganga frá leiknum en nýttu þau ekki. Undir lok leiksins settu Fylkismenn, sem fram að þessu höfðu lítið sem ekkert skapað sér í leiknum, mikla pressu á KR. Geoffrey Castillion átti dauðafæri þegar venjulegur leiktími var að renna út og á annarri mínútu uppbótartímans fékk Fylkir hornspyrnu sem varamaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson skoraði úr. Leiknum lauk því með 1-1 jafntefli.

Af hverju var jafntefli?

Eftir að hafa náð að loka á allar sóknaraðgerðir Fylkis í leiknum náðu KR-ingar ekki að halda út og fá mark á sig úr föstu leikatriði. Ef horft er á sköpuð færi í leiknum átti Fylkir líklega ekki skilið að fá stig, en það er ekki spurt að því og Árbæingar sýndu karakter að halda áfram og gefast ekki upp.

Hverjir stóðu upp úr?

Óskar Örn Hauksson var manna bestur inni á vellinum í dag. Hann á stoðsendinguna í marki KR og hann var mikill drifkraftur í sóknarleik þeirra. Aron Snær Friðriksson varði vel í marki Fylkis og Valdimar Þór átti sannarlega góða innkomu í Fylkisliðið.

Hvað gekk illa?

Þessi leikur fær ekki háa einkunn þegar kemur að fagurfræði. Það voru erfiðar aðstæður í Vesturbænum, það var mikill vindur og kalt, og liðin voru ekki að bjóða upp á neinn blússandi sóknarbolta. Það var mjög mikil harka í leiknum og gekk illa að skapa alvöru dauðafæri.

Hvað gerist næst?

Næsta umferð hefst strax á miðvikudaginn, það er leikið þétt þessa dagana. Bæði þessi lið eiga þó leik á fimmtudag, Fylkir fær Íslandsmeistara Vals í heimsókn á teppið í Árbænum en KR fer suður með sjó og leikur við Grindavík.

Helgi á hliðarlínunni síðasta sumarvísir/bára
Helgi: Snýst ekki um fagurfræðina í byrjun

„Þetta var gott stig, en miðað við hvernig seinni hálfleikurinn var þá fannst mér við vera ofan á í honum, vorum búnir að fá tvö, þrjú færi rétt áður þannig að þetta mark lá í loftinu,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis.

„Ég skil gremju KR-inga að hafa fengið mark á sig á síðustu mínútunum, við fengum að kenna á því í síðasta leik. En leikurinn er 90 mínútur plús og við sýndum mikinn karakter í dag.“

„KR var klárt betra liðið í fyrri hálfleik en við ákváðum að koma sterkir út í seinni hálfleikinn og pressa þá hærra upp. Svo gerðum við breytingu að fara í þriggja manna vörn og setja tvo menn upp og það gekk mjög vel. Við náðum að setja pressu á þá og fengum færi undir lokin.“

„Það var mikill vindur hér í dag, erfiðar aðstæður og erfitt að spila góða knattspyrnu en fyrst og fremst ánægður með karakterinn í liðinu. Ég sagði við strákana í upphafi móts að þetta snerist ekki endilega um fagurfræðina hérna í byrjun heldur að fá eins mikið af stigum og hægt er til þess að fá aukið sjálfstraust,“ sagði Helgi Sigurðsson.

Rúnar Kristinssonvísir/bára
Rúnar: Ekki nógu duglegir að refsa

Þjálfari KR, Rúnar Kristinsson, var ekki sáttur í leikslok með að fá jöfnunarmarkið á sig undir lok leiksins.

„Við þurfum bara að nýta færin okkar betur, við áttum að klára þennan leik í síðari hálfleik. Við gerðum það ekki og fyrir vikið þá kemur alltaf smávegis pressa þegar lítið er eftir og Fylkismenn nýttu sér það,“ sagði Rúnar.

En hvað fannst honum um leikinn? „Erfiðar aðstæður, vindur sem setti strik í reikninginn fyrir bæði lið. Mikil barátta eins og það vill oft verða gegn Fylki, þeir eru grjótharðir.“

„Ég er ánægður með baráttuna og skipulagið í liðinu lengi vel. Undir lokin taka þeir mikla sénsa og mér fannst við ekki nógu duglegir í að refsa þeim og stela af þeim boltanum þegar þeir spila út úr vörninni í síðari hálfleik.“

Ólafur Ingi Skúlason er fyrirliði Fylkis.vísir/vilhelm
Ólafur Ingi: Skil ekki hvað KSÍ er að gera að setja þennan mann á þennan leik

„Gott stig, miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Við lágum á þeim hérna undir lokin og mér fannst við vera miklu betra liðið í seinni hálfleik, verðskuldað stig,“ sagði Ólafur Ingi, fyrirliði Fylkis, í leikslok.

„Þetta var baráttuleikur en við byrjuðum ekki nógu vel. Vorum ekki tilbúnir í slaginn í byrjun, við náðum ekki að leysa út úr pressunni eins og við viljum og svo slökkvum við á okkur í horni, sem á ekki að gerast, og þeir fá auðvelt mark.“

Ólafur var ekki lengi að svara því hvort vítið sem dæmt var á hann snemma leiks væri víti, „nei,“ sagði hann einfaldlega.

„Mér fannst dómarinn bara vera alveg hræðilega slakur í dag, ég verð bara að segja það. Mér fannst hann missa tökin á þessu.“

„Við áttumst við í Reykjavíkurmótinu líka, þessi tvö lið, og það eru yfirleitt miklir baráttuleikir. Hann dæmdi báða þá leiki líka og hafði engin tök á því heldur, þannig að ég skil ekki hvað þetta annars ágætisfólk hjá KSÍ er að gera með því að setja þennan mann á þennan leik.“

„Hann dæmdi illa á bæði lið fannst mér og það er ekkert honum að kenna úrslitin, en þetta var aldrei víti,“ sagði Ólafur Ingi.

Óskar Örn Haukssonvísir/bára
Óskar: Fylkisliðið ekki að reyna að spila mikinn fótbolta

„Maður hugsar um þetta sem tap, bara hræðilegt og aulalegt af okkar hálfu,“ sagði Óskar Örn Hauksson um úrslitin.

„Mér fannst Fylkisliðið ekki vera að reyna að spila mikinn fótbolta, þetta voru mikið bara kýlingar fram og við að díla við það. En við leysum þetta ekki nógu vel og erum með vondar ákvarðanir þarna í lokin. Við eigum að vera betri en þetta.“

„Í stöðunni 1-0 er alltaf hætta að fá mark í andlitið.“

Fyrirliðinn átti erfitt með að svara því hvað hann hafi verið ánægðastur með í leik KR.

„Við díluðum við þessa löngu, háu bolta ágætlega allan leikinn. En það er erfitt að segja núna hvað maður er ánægður með í þessu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira