Erlent

Tugir flóttamanna drukkna undan ströndum Túnis

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Flóttamenn bíða eftir að ganga frá borði björgunarskips. Mynd tengist frétt ekki beint.
Flóttamenn bíða eftir að ganga frá borði björgunarskips. Mynd tengist frétt ekki beint. Getty/Jesus Merida
Að minnsta kosti 65 flóttamenn drukknuðu í dag þegar báti þeirra hvolfdi á Miðjarðarhafinu, rétt fyrir utan strendur Túnis. Hópurinn hafði siglt frá Líbíu í von um að ná til Evrópu, samkvæmt flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Slysið er eitt mannskæðasta slys á flóttamönnum á leið til Evrópu það sem af er ári en ríkismiðill Túnis, Afrique Presse sagði að minnsta kosti 70 manns hafa látið lífið.

Vincent Cochetel, sendifulltrúi UNHCR fyrir Miðjarðarhafið sagði í tilkynningu „þetta er skelfilegt slys og hræðileg áminning á það hve miklar hættur fólk sem reynir að komast yfir Miðjarðarhafið þarf að kljást við.“

Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2019 er vitað til að 164 einstaklingar hafi látið lífið á leiðinni yfir hafið. Þetta er lægri tala en síðustu ár, en hærra hlutfall en hefur verið. Nú deyr 1 á móti hverjum 3 sem ná til Evrópu.

UNHCR sagði bátinn hafa lagt af stað frá Líbíu á fimmtudag, þar sem stríðandi fylkingar hafa hertekið Trípólí, höfuðborg landsins, síðast liðnar fimm vikur.

Vitað er til þess að 16 manns hafi lifað slysið af og aðeins einn var færður á spítala en hinir bíða þess að fá að ganga á land í Zarzis og bíða þess í herskipi Túniska sjóhersins.

Afrique Presse sagði bátinn hafa sokkið um 40 sjómílum norður af strönd Sfax og að fólkinu sem eftir var hafi verið bjargað af sjómönnum. Aðeins þrjú lík hafa fundist eftir slysið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×