Íslenski boltinn

Fjölnismenn töpuðu í Safamýrinni, jafnt á Nesinu og nýliðarnir afgreiddu Leikni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bergsveinn Ólafsson er fyrirliði Fjölnis.
Bergsveinn Ólafsson er fyrirliði Fjölnis. vísir/vilhelm
Fram vann 3-2 sigur á Fjölni er liðin mættust í Reykjavíkurslag í Inkasso-deild karla í kvöld en leikurinn var afar fjörugur.

Hans Viktor Guðmundsson kom Fjölni yfir á 15. mínútu en tveimur mínútum síðar jafnaði hinn ungi og efnilegi Unnar Steinn Ingvarsson metin.

Hlynur Atli Magnússon kom Fram svo yfir fyrir hlé en á níundu mínútu síðari hálfleiks jafnaði Jón Gísli Ström metin. Sigurmarkið kom á 61. mínútu en það gerði Helgi Guðjónsson.

Bæði lið eru því með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina en Afturelding er komið með sín fyrstu þrjú stig í Inkasso-deildinni eftir 2-1 sigur á Leikni í Mosfellsbæ.

Fyrsta mark leiksins gerði Andri Freyr Jónasson á 26. mínútu en tíu mínútum áður hafði Leiknis-maðurinn Ingólfur Sigurðsson fengið beint rautt spjald.

Sólon Breki Leifsson jafnaði stundarfjórðungi fyrir leikslok en Ásgeir Örn Arnþórsson tryggði Aftureldingu sigurinn tíu mínútum fyrir leikslok. Bæði lið með þrjú stig eftir tvo leiki.

Grótta er svo komið á blað í Inkasso þetta árið eftir 2-2 dramatískt jafntefli gegn Þrótti. Ágúst Leó Björnsson kom Þrótti yfir úr vítaspyrnu á 44. mínútu en Dagur Guðjónsson fékk rautt spjald er hann braut af sér í vítinu.

Kristófer Orri Pétursson jafnaði metin á 58. mínútu en aftur skoraði Ágúst Leó og kom Þrótti yfir á 67. mínútu. Í uppbótartíma jafnaði hins vegar Pétur Theódór Árnason og lokatölur 2-2.

Bæði lið eru með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×