Íslenski boltinn

Óttar Bjarni: Maður roðnar bara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óttar Bjarni fagnar með liðsfélögum sínum.
Óttar Bjarni fagnar með liðsfélögum sínum. Vísir/Daníel
Óttar Bjarni Guðmundsson skoraði fyrra mark ÍA í sigrinum á Val, 1-2, á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég er virkilega glaður. Það er ekkert hægt að lýsa því betur. Við fengum þrjú stig, sofum á því og síðan byrjun við undirbúa okkur fyrir leikinn gegn FH á morgun,“ sagði Óttar Bjarni við Vísi eftir leik.

Breiðhyltingurinn hefur nú skorað í þremur leikjum í röð, tveimur í deild og einum í bikar. Hann er þriggja marka maður í sumar en fyrir tímabilið hafði hann ekki skorað í deild eða bikar síðan 2014.

„Ég veit ekki hvað er að gerast. Maður veit ekki hvernig maður á að haga sér og roðnar bara. En ég reyni að njóta,“ sagði Óttar Bjarni hlæjandi.

Skagamenn voru öflugir í leiknum í kvöld, leiddu 0-2 í hálfleik og þrátt fyrir að Valsmenn minnkuðu muninn snemma í seinni hálfleik lönduðu Akurnesingar sigri.

„Við náðum tveggja marka forskoti í hálfleik en eins og gegn Fylki héldum við boltanum ekki nógu vel. En við vorum aðeins framar með vörnina en gegn Fylki og héldum Val nokkurn veginn frá markinu,“ sagði Óttar Bjarni.

ÍA er með sjö stig í 2. sæti deildarinnar. Þrátt fyrir góða byrjun á tímabilinu eru Skagamenn jarðtengdir og einbeittir á næstu leiki.

„Við erum með sjö stig og ætlum að vera með tíu stig eftir næsta leik. Við stefnum á það,“ sagði Óttar Bjarni að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×