Innlent

Gunnar Bragi hafði alla helgina til að skrifa minnihlutaálit

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir ekkert hæft í þeirri staðhæfingu Miðflokksmanna að málsmeðferð utanríkismálanefndar vegna þriðja orkupakkans hafi verið óboðleg. Logi hrósar formanni nefndarinnar fyrir fagleg vinnubrögð.

Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis afgreiddi í dag álit vegna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra vegna þriðja orkupakkans. Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu, atkvæði Miðflokksins og verður önnur umræða um tillöguna á Alþingi á morgun.

Miðflokkurinn sendi frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem segir að aðeins sé gefinn einn dagur til þess að leggja fram minnihlutaálit. Það sé óeðlilega skammur tími. Svo segir:

„Það má ljóst vera að ætlunin er að þröngva málinu í gegnum Alþingi á sem skemmstum tíma þrátt fyrir að málið valdi mörgum áhyggjum og mikil andstaða sé við það meðal þjóðarinnar.“

Á fundi utanríkismálanefndar á föstudag voru þingmenn í nefndinni upplýstir um að unnið yrði álit vegna þingsályktunartillögunnar sem yrði lagt fram í dag. Gunnar Bragi Sveinsson, fulltrúi Miðflokksins í utanríkismálanefnd, hafði því alla helgina til að vinna minnihlutaálit en gerði það ekki. Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð hafa skipst á að sitja fundi nefndarinnar að undanförnu. 

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd Alþingis. Vísir/Eyþór

Logi Einarsson formaður Samfylkinngarinnar og fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd segir ekkert hæft í þeirri staðhæfingu að upplýsingagjöf til þingmanna í nefndinni hafi verið ábótavant. 

„Mér finnst formaður nefndarinnar, Áslaug Arna, hafa haldið alveg sérstaklega vel á þessu máli. Það voru allir upplýstir um það að þeir gætu sent inn beiðni um gesti og það voru margir fundir og margir gestir. Við höfum tekið langan tíma í þetta. Það var tilkynnt á föstudag að málið yrði tekið út á mánudag, það kæmi nefndarálit þá og síðan yrði málið tekið fljótlega á dagskrá. Þannig að ég get ekki séð að það sé neitt að þessum vinnubrögðum,“ segir Logi Einarsson. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.