Erlent

Enn ein rannsóknin á rannsókninni sett á laggirnar

Samúel Karl Ólason skrifar
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Andrew Harnik
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur opnað nýja rannsókn á uppruna Rússarannsóknarinnar svokölluðu. Rannsókninni er meðal annars ætlað að varpa ljósi á það hvort upplýsingaöflun varðandi framboð Donald Trump, forseta, og eftirlit með fyrrverandi starfsmönnum framboðsins hafi brotið lög.

Nú þegar er innra eftirlit Dómsmálaráðuneytisins að rannsaka málið og innra eftirlit Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) einnig. Þetta er því þriðja rannsóknin á uppruna Rússarannsóknarinnar. Þar að auki hafa þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni, þar sem þeir eru í meirihluta, gefið í skyn að þeir vilji einnig rannsaka uppruna Rússarannsóknarinnar.

Trump sjálfur hefur ítrekað haldið því fram að njósnað hafi verið um framboðið. Barr sagðist einnig í síðasta mánuði trúa því að „njósnir“ hafi farið fram en dró svo í land með þær ásakanir.

Að undanförnu hafa Trump-liðar sérstaklega gagnrýnt eftirlit með með Carter Page og George Papadopoulos, sem báðir störfuðu hjá forsetaframboði Trump.

FBI fékk heimild til að fylgjast með Carter Page árið 2016, sem þá var fyrrverandi starfsmaður framboðs Trump. New York Times sagði nýverið frá því að FBI hefði sent útsendara í dulargervi til að ræða við George Papadopoulos, ráðgjafa hjá framboðinu, eftir að hann sagði áströlskum erindreka frá því að Rússar sætu á upplýsingum um Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, áður en það var opinbert.



Christopher A. Wray, yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna, sem skipaður var af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, segir að ekki sé rétt að kalla rannsókn á starfsmönnum framboðs Trump „njósnir“. Hann sagðist engar vísbendingar hafa séð um að nokkuð ólöglegt hafi farið fram.

Sjá einnig: Yfirmaður FBI segir engar vísbendingar um að „njósnað“ hafi verið um framboð Trump



Samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar hefur Barr skipað saksóknarann John Durham sem yfirmann nýjustu rannsóknarinnar. Hann var tilnefndur í embætti alríkissaksóknara af Trump og staðfestur í embætti af öllum öldungadeildarþingmönnum í fyrra.



Durham hefur rannsakað spillingarmál innan lögregluembætta, eyðileggingu gagna innan CIA og tengsl starfsmanna FBI í Boston við glæpamenn og þykir harður í horn að taka.


Tengdar fréttir

Skýrslan lýsir tilraunum Trump til að skaða rannsóknina

Þrátt fyrir að ekki sé mælt með ákæru í skýrslu Roberts Mueller lýsir hann tilraunum Trump forseta til að leggja stein í götu rannsóknarinnar, þar á meðal með því að vilja reka Mueller sjálfan.

Skoða aðgerðir gegn fleirum í ríkisstjórn Trump

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, gaf í skyn í dag að Demókratar í fulltrúadeildinni gætu sakað fleiri núverandi og fyrrverandi starfsmenn Donald Trump, forseta, um vanvirðingu gagnvart þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×