Íslenski boltinn

Fimleikafélagið: Lögreglukonan í FH-liðinu í aðalhlutverki í nýjasta þættinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selma Dögg Björgvinsdóttir.
Selma Dögg Björgvinsdóttir. Skjámynd/Fimleikafélagið
Sjötti þáttur seríu tvö af Fimleikafélaginu er kominn út en fimleikafélagið beinir athygli sinni að þessu sinni að kvennaliði sínu.

Freyr Árnason hefur sett saman nýjasta þáttinn af Fimleikafélaginu en þættirnir eru sýndir hér inn á Vísi.

Í þáttunum gefst FH-ingum og öðrum áhugamönnum um íslenskan fótbolta tækifæri til að skyggnast á bak við tjöldin hjá risanum í Hafnarfirði en myndavélin kemst inn á staði þar sem menn eru vanalega ekki að mynda.

Að þessu sinni er komið að því að beina sjónum sínum að meistaraflokki kvenna hjá FH. Kvennalið FH spilar í Inkasso deildinni og gerði 1-1 jafntefli við ÍA í fyrstu umferð á dögunum.

Fimleikafélagið fékk að fylgjast aðeins með lífinu hjá þeim Selmu Dögg Björgvinsdóttur, Ernu Guðrúnu Magnúsdóttur og Nótt Jónsdóttur þegar þær eru ekki á æfingum í Kaplakrika.

Þátturinn byrjar ekki í Hafnarfirði heldur á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Þar fáum við að sjá lögreglukonuna í FH-liðinu í vinnunni.

„Ég er búin að vera í nokkra mánuði, frekar stutt,“ segir Selma Dögg Björgvinsdóttir en hún er að læra lögreglufræði í Háskólanum á Akureyri og er í 70 prósent vinnu með.

„Ég var ekkert búin að mynda mér skoðun á löggunni enda hefur hún ekki þurft að hafa afskipti af mér,“ segir Selma Dögg.

Hún sýndi aðstöðuna á lögreglustöðinni og meðal annars hvar lögreglufólkið ætlar að horfa á Pepsi Max deildina í sumar.

Fimleikafélagið hitti síðan á þær Ernu og Nótt í Háskólanum í Reykjavík þar sem þær stunda báðar nám, Erna í viðskiptafræði en Nótt í lögfræði.

„Ég held að við séum að fara beint upp,“ segir fyrirliðinn Erna Guðrún Magnúsdóttir. Hún er ánægð að fá margar gamlar FH-stelpur aftur til baka inn í liðið. Ein af þeim er Nótt.

Sjötta þátt annarrar seríu Fimleikafélagsins má sjá í heild sinni fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×