Erlent

Lásbogafórnarlömbin voru áhugafólk um miðaldir

Kjartan Kjartansson skrifar
Hótelið við ánna Ilz þar sem þrennt fannst látið, skotið með lásboga, á laugardag.
Hótelið við ánna Ilz þar sem þrennt fannst látið, skotið með lásboga, á laugardag. AP/Matthias Schrader
Karlmaður og tvær konur sem fundust látin eftir að þau höfðu verið skotin með lásboga í Bæjaralandi um helgina voru öll skráð á vefsíðu áhugafólks um miðaldavopn. Enn hefur lögreglu hvorki tekist að varpa ljósi á hvernig fólkið tengdist né á dauða tveggja kvenna sem fundust í íbúð annarrar konunnar.

Lík fólksins fannst á hóteli við vinsæla gönguleið nærri bænum Passau í Bæjaralandi í Þýskalandi á laugardag. Þau höfðu öll verið skotin til bana með lásbogum. Lögregla fann þrjá lásboga á vettvangi en tveir þeirra höfðu verið notaðir.

Saksóknarar segjast þess fullvissir að enginn annar en fólkið hafi verið á herberginu. Engin merki hafi fundist um átök, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Fólkið hafði bókað þrjár nætur á hótelinu.

Karlmaðurinn, sem var 53 ára gamall, hefur aðeins verið nafngreindur sem Torsten W. Hann og Kerstin E, sem var 33 ára gömul, fundust liggjandi á rúmi þar sem þau héldust hönd í hönd. Hann hafði verið skotinn tveimur örvum í höfuðið og þremur í brjóstið. Konan hafði verið skotin einni ör í höfuðið og annarri í brjóstið.

Hin konan var þrítug og hefur verið nafngreind sem Farina C. Hún fannst látin á gólfi herbergisins. Hún hafði verið skotin einni ör í hálsinn undir hökunni.

Á herberginu fundust tvær erfðarskrár. Önnur þeirra tilheyrði Torsten W en hin Kerstin E. Þau voru bæði frá sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz í vesturhluta Þýskalands.

Frá vettvangi í Wittigen þar sem tvær konur fundust látnar í íbúð annarrar konunnar sem var skotin með lásboga nærri borginni Passau, um 650 kílómetrum sunnar.DPA/Christophe Gateau

Önnur þeirra látnu talin maki Farinu C

Farina C var frá bænum Wittigen í norðanverðu Þýskalandi. Lík tveggja kvenna fundust í íbúð hennar á mánudag. Nágrannar gerðu lögreglu viðvart eftir að fréttirnar af líkfundinum í Passau spurðust út. Póstkassi konunnar var þá yfirfullur og óvenjuleg lykt barst frá íbúðinni.

Lögregla telur að konurnar tvær hafi verið látnar í einhverja daga áður en lík þeirra fundust. Önnur þeirra var 35 ára gamall grunnskólakennari og er talin sambýliskona Farinu C. Hin konan var nítján ára gömul og kom frá Rínarlandi-Pfalz eins og Torsten W og Kerstin E. Talið er að hún hafi búið í íbúðinni eftir að hún flúði að heiman eftir rifrildi við foreldra sína.

Ekki liggur fyrir hvernig konurnar tvær létust. Engir lásbogar fundust í íbúðinni og engin merki voru um átök.

Torsten, Kerstin og Farina voru öll skráð á vefsíðu Alþjóðlegu burtreiðadeildarinnar (IJL) í Belgíu. Samtökin skipuleggja miðaldakeppnir þar sem félagar sýna hæfileika sína með miðaldavopn og í reiðmennsku. Torsten er sagður hafa átt verslun sem seldi ýmsan miðaldavarning eins og sverð, hnífa og mjöð.


Tengdar fréttir

Fundust látin með lásboga í hendi

Lögreglan í Bæjarlandi í Þýskalandi rannsakar mál vegna fundar þriggja líka á hótelherbergi, sem höfðu orðið fyrir örvum lásboga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×