Enski boltinn

Leikmennirnir sem toppliðin í ensku deildinni ætla að kaupa í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enski landsliðsmaðurinn Jadon Sancho er eftirsóttur.
Enski landsliðsmaðurinn Jadon Sancho er eftirsóttur. Getty/Rob Newell

Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu lauk um helgina og næsti leikur í deildinni fer ekki fram fyrr en í ágúst. Það á aftur á móti mikið eftir að gerast í deildinni þangað til.

Ensku úrvalsdeildarliðin eru þekkt fyrir að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum á sumrin og það er öruggt að ný andlit munu sjást í ensku deildinni næsta haust.

Breska ríkisútvarpið tók fyrir toppliðin sex og velti því fyrir sér hvað þau ætli að gera á leikmannamarkaðnum í sumar. Þetta eru liðin Manchester City, Liverpool, Chelsea, Tottenham, Arsenal og Manchester United og þetta er fróðleg samantekt.

Flestra augu verða á Ole Gunnar Solskjær og Manchester United en það er búist við miklum breytingum þar á bæ. Solskjær hefur boðað þær enda endaði United liðið 32 stigum á eftir meisturum Manchester City.Samkvæmt úttekt BBC þá vantar Englandsmeistara Manchester City djúpan miðjumann og miðvörð vinstra megin. Liðið hefur verið öflugt í að styrkja liðið á síðustu árum og það verður væntanlega ekki breyting á því núna.

Hinn 22 ára gamli miðjumaður Rodri hjá Atletico Madrid þykir líklegur en City ætlar ekki að reyna að kaupa Bruno Fernandes frá Sporting Lissabon. City hefur líka áhuga á Aaron Wan-Bissaka, 21 árs bakverði Crystal Palace.

BBC á ekki von á miklum breytingum hjá Liverpool og líklega mun Jürgen Klopp í mesta lagi kaupa einn til tvo leikmenn. Liðið mun hafa augun opin fyrir vinstri bakverði, kannski miðverði og mögulega fjölhæfum sóknarmanni sem gæti spilar margar stöður framarlega á vellinum.

Liverpool mun aftur á móti ekki selja sína bestu leikmenn sem eru mjög góðar fréttir fyrir stuðningsmennina enda hafa mörg félög áhuga á mönnum eins og Mohamed Salah og Roberto Firmino.

Chelsea getur lítið gert haldi félagsskiptabannið sem félagið var dæmt í á dögunum. Þeir hafa áfrýjað en niðurstöður úr Íþróttadómstólnum gætu kannski ekki komið fyrr en í júlí og þá er lítill tími til stefnu.

Stærsta spurningin er sem áður um framtíð Eden Hazard sem er væntanlega á förum til Real Madrid í sumar. Sleppi Chelsea við bannið er ljóst að félagið mun láta til sín taka á markaðnum eins og áður.Tottenham hefur ekkert gert í síðustu tveimur félagsskiptagluggum og kemst varla upp með það þriðja gluggann í röð. Tottenham hefur mikinn áhuga á Ryan Sessegnon hjá Fulham en það hafa fleiri félög.

Danski miðjumaðurinn Christian Eriksen verður mögulega seldur í sumar þar sem hann vill ekki framlengja samninginn sinn. Victor Wanyama og mögulega Eric Dier gætu líka yfirgefið Tottenham. Fari allir þessir menn þá þarf Tottenham að kaupa inn á miðjuna.

Liðið vantar líka framherja því það er erfitt að þurfa alltaf treysta á hinn 34 ára gamla Fernando Llorente þegar reynir á breiddina í framlínu liðsins.

Arsenal mun gera dauðaleit að eftirmanni Aaron Ramsey og félagið ætti að fá mun meiri pening í nýja leikmenn takist því að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni með sigri í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Liðið vantar miðvörð og miðjumann í stað Aaron Ramsey. Arsenal gæti einnig reynt að finna sókndjarfan mann á vænginn. Svo þarf Arsenal að ákveða hvort að ungu strákarnir verðu með á fullu næsta vetur eða hvort þeir verða sendir út í lán.Manchester United mun örugglega verða stórtækt á markaðnum. Fjöldi leikmanna munu yfirgefa félagið og margir verða keyptir. Það þarf að hreinsa til á Old Trafford og nýr stjóri gerir sér vel grein fyrir því eftir skelfilegan endi á tímabilinu.

United hefur mikinn áhuga á það kaupa miðvörðinn Kalidou Koulibaly frá Napoli en hann gæti verið mjög dýr. Þá mun United keppa við City um bakvörðinn Aaron Wan-Bissaka hjá Crystal Palace.

Mjög ofarlega á óskalistanum er síðan Jadon Sancho, ungi enski landsliðsmaðurinn hjá Dortmund. Jadon Sancho vildi koma til United en það gæti hafa breyst nú þegar ljóst er að liðið verður ekki í Meistaradeildinni. PSG, Barcelona og Real Madrid vilja líka fá Sancho þannig að það er mikil samkeppni um þennan 19 ára strák sem mun örugglega fara í stærra lið í sumar.

Það má finna frekari vangaveltur um toppliðin og leikmannamarkaðinn í sumar með því að smella hér.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.